Sport

Súperstjarnan braut reglur með því að lýsa yfir stuðningi við Trump í beinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nick Bosa vildi ólmur lýsa yfir stuðningi við Donald Trump og mætti því inn í mitt viðtal hjá liðsfélaga sínum.
Nick Bosa vildi ólmur lýsa yfir stuðningi við Donald Trump og mætti því inn í mitt viðtal hjá liðsfélaga sínum. Getty/ Lachlan Cunningham/

NFL stjörnuleikmaðurinn Nick Bosa braut reglur deildarinnar þegar hann mætti óumbeðinn í viðtal með Donald Trump derhúfu.

Bosa var greinilega staðráðinn að lýsa yfir stuðningi sínum við fyrrverandi forseta Bandaríkjanna en Trump reynir að komast aftur til valda í forsetakosningunum á þriðjudaginn kemur.

Bosa var öflugur í sigri San Francisco 49ers á Dallas Cowboys um síðustu helgi. Hann var þó ekki tekin í sjónvarpsviðtal eftir leikinn heldur var leikstjórnandi hans Brock Purdy í umræddu viðtali.

Bosa ákvað að trufla viðtalið og birtist þá með „Make America great again“ Maga-derhúfu. Þetta eru einkunnarorð Trump frá því að hann var kosinn forseti árið 2016. Bosa benti á húfu sína og það fór ekkert á milli mála að hann var lýsa yfir stuðningi við Trump.

Uppátæki Bosa vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum og þar skiptust menn í tvo hópa eins og oft áður í bandarískum stjórnmálum.

Bosa er stórstjarnan í deildinni og var kosinn besti varnarmaður deildarinnar árið 2022.

Bosa var seinna spurður út í framferði sitt á blaðamannafundi en vildi þá ekki segja mikið.

„Ég vil ekki tala mikið um það en ég tel að við lifum á mikilvægum tímum,“ sagði Bosa.

Bosa á von á refsingu, líklegast vænlegri sekt, fyrir brot á reglum deildarinnar sem banna öll pólitísk skilaboð. Það fylgir þó sögunni að treyja Bosa hefur selst vel síðan og væntanlega til ánægðra Trump stuðningsmanna.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×