Viðbragðsaðilar hafa í dag leitað þeirra sem enn er saknað, eftir að mannskæð flóð riðu yfir í Valencia í fyrradag. Þá hefur verið lögð áhersla á að koma fólki, sem sat fast í bílum sínum þegar flóðið reið yfir, til bjargar en margir voru þegar látnir.
„Ég var hér frá hálfníu um kvöldið til sex um morguninn.Slökkviliðsmennirnir tóku eldra fólkið fyrst. Ég er úr nágrenninu og reyndi að hjálpa og bjarga fólki. Fólk var grátandi út um allt. Það komst hvergi,“ segir Luis Sanchez, íbúi í Valencia.
„Já, ég sá lík fljóta fram hjá. Ég kallaði en fékk ekki svar.“

Forsætisráðherrann hefur biðlað til fólks að halda sig heima - hættan sé ekki yfirstaðin. Spænsk yfirvöld muni aðstoða héraðið, auk þess sem Evrópusambandið muni leggja fram hjálparhönd.
Þriggja daga þjóðarsorg var lýst yfir í gær. Filippus sjöundi konungur leiddi mínútu þögn í dag og flaggað var í hálfa stöng í Strassborg og Brussel við alþjóðastofnanir. Flóðin hafa skilið eftir sig slóð eyðileggingar og götur eru eitt drullusvað. Meirihluti heimila er rafmagns-, net- og vatnslaus og verið er að dreifa nausynjavörum til íbúa, þó þær nái ekki til allra.
„Við erum að safna mat, vatni öllu sem við getum fundið því maturinn verður hvort sem er ónýtur. Aldraðir komast ekki hingað og fólk er svangt,“ segir Alejandra Mina í samtali við fréttamann AP.
Nieves Vargas Cortes, íbúi í borginni, segist hafa þurft að bregða á það örþrifaráð að stela mat, þó það sé henni þvert um geð.
„Við erum ekki þjófar, ég vinn fyrir bæinn við þrif í skólanum. En við þurfum að borða. Ég tók barnamat fyrir barnið. Þetta er blautt, svo ég veit ekki hvort það er nothæft. Hvað get ég gefið barninu ef við erum ekki með rafmagn?“