Fótbolti

Rúss­neskur mark­vörður vill verða Norð­maður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikita Haikin er að standa sig vel með liði Bodö/Glimt og gæti fengið tækifæri með norska landsliðinu fái hann norskt vegabréf.
Nikita Haikin er að standa sig vel með liði Bodö/Glimt og gæti fengið tækifæri með norska landsliðinu fái hann norskt vegabréf. Getty/Srdjan Stevanovic

Nikita Haikin, aðalmarkvörður norska úrvalsdeildarliðsins Bodö/Glimt, vill verða norskur ríkisborgari.

Haikin staðfesti þetta við staðarblaðið Avisa Nordland.

„Já það er eitthvað sem ég vil. Ekki vegna fótboltans heldur út af fjölskyldu minni. Ég á norska unnustu og ég stefni á að búa hér í framtíðinni. Ég myndi elska það að verða Norðmaður og ég elska þetta land,“ sagði Nikita Haikin við norska blaðamanninn hjá AN.

Einhver gæti þó litið á það sem svo að Haikin væri að safna vegabréfum. Hann á þrjú í dag, enskt, ísraelskt og rússneskt.

Haikin hefur verið valinn í rússneska landsliðið en aldrei spilað landsleik. Hann ætti því möguleika að spila fyrir norska landsliðið fái hann norskt vegabréf.

„Já hann kæmi til greina. Hann hefur átt mjög gott tímabil eftir að hafa verið svolítið upp og niður fyrst eftir að hann kom til baka. Eftir sumarhlé þá hefur hann verið sérstaklega góður í Evrópuleikjunum með Bodö/Glimt, sagði norski landsliðsþjálfarinn Ståle Solbakken við Avisa Nordland.

Örjan Håskjold Nyland er aðalmarkvörður norska landsliðsins en hann er meiddur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×