Í dag voru bæði gular og appelsínugular viðvaranir gefnar út af Veðurstofu en engin til að mynda á norðanverðum Vestfjörðum. Nú er appelsínugul viðvörun á norðanverðum Vestfjörðum og gulri viðvörun hefur verið bætt við á Vesturlandi.
„Fyrir utan almenna spá um mikla veðurhæð kemur kröpp lægðin við Vestfirði til með að slengja inn suðvestan-vindröst yfir norðanverða Vestfirði og Strandir. Allt að 28-32 m/s síðdegis, ofsaveður eða fárviðri og hviður um og yfir 50 m/s. Í vestanverðum Skagafirði og Eyjafirði eru einnig horfur á mjög hvössum og byljóttum vindi, einkum síðdegis eða 23-28 m/s,“ segir í tilkynningu frá Einari Sveinbjörnssyni veðurfræðingi Veðurstofunnar.
„Ekkert ferðaveður. Nauðsynlegt er að ganga frá lausamunum til að fyrirbyggja foktjón og er fólki bent á að sýna varkárni,“ segir á vef Veðurstofunnar.