Skoðun

Ég og amma mín sem er dáin

Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir skrifar

Ég átti einu sinni ömmu. Sonur minn kallar hana „ömmu mína sem er dáin“ sem hún vissulega er. Hún dó áður en hann fæddist en það er glæsileg mynd af henni á heimili okkar og hún er stundum rædd. Þá segi ég frá minningum mínum um hana - til dæmis að hún var alltaf með bleika mjúka mottu í kringum klósettið og aðra í stíl ofan á klósettsetunni. Baðherbergið hennar var mjög skreytt og greinilegt að hún lagði mikla áherslu á að fegra það sem hægt var, meira að segja Gustavsberg. Hún átti líka alltaf Toffypops kex í búrinu og sagði alltaf já þegar ég bað um kex. Hún keyrði um á eplarauðum settlegum frúarbíl sem var einhvern veginn alltaf nýbónaður og garðurinn hennar var á stærð við fótboltavöll. Sonur minn sér ömmu sína eflaust fyrir sér í lifandi lífi sem einhverskonar hefðarfrú úr sögubók. 

En sko, þetta er sama amma og bað mig um að tala aldrei við menn með klút á höfðinu þegar ég bjó erlendis. Sama amma og kleip reglulega í síðuna á mér, leit mig hornauga og minnti mig á að konur ættu að passa upp á holdafar sitt. Sama amma og missti manninn sinn af slysförum og fékk ekki hjálp fagaðila til þess að takast á við lífið sem ekkja. Sama amma og hvíslaði að mér á dánarbeðinu að ég þyrfti að lofa henni því að kjósa aldrei neitt annað en Sjálfstæðisflokkinn. Sama amma og missti son sinn í fæðingu og þurfti að lifa með sorg sinn í þögn því það var ekkert annað í boði en að harka af sér. Sama amma og kallaði manninn minn og síðar barnsföður alltaf vin minn, því hann var ekki af merkilegum ættum og henni fannst ég „geta betur.“ 

Við sonur minn höfum mjög ólíka sýn á ömmu mína. Hans hugmynd er draumkennd þar sem rignir kexi. Mín hugmynd er raunverulegri. Amma var sú manneskja sem ég leitaði mest til og var minn trúnaðarvinur allt til dauðadags. Það breyttist bara svo margt á meðan hún lifði. Við fæddumst á sömu öld en í allt öðrum heimi. Gildismat hennar og sýn á lífið mótaðist af því hvernig samfélagið var þegar hún var að alast upp. Það ríkti mikill ójöfnuður, Ísland var mjög einangrað land þar sem efnahagsleg stéttaskipting var mikil og frændhygli réð ríkjum. Karlar áttu öll tækifærin, konur áttu að ala börn og hlýða. Lífslíkur voru minni og mikil þöggun ríkti um ofbeldismál. Vöggustofur, barnaheimili og uppeldisheimili voru víða um land, því einhversstaðar þurftu óþekku krakkarnir að vera og helst ekki vera heima hjá sér. 

Upptalningin að ofan er ekki skrifuð til þess að varpa skugga á líf ömmu. Hún er áminning um að það er verið að kasta ryki í augun á okkur kjósendum þegar talað er um að það sé þörf á því að fá aftur gamla góða Ísland. Það er nefnilega ekki svo að allt gamalt sé gott. Margt gamalt eldist nefnilega illa og er best geymt í fortíðinni. Horfum til framtíðar, krefjumst breytinga á því sem virkar illa og hugsum um Ísland sem land næstu kynslóða, en ekki land ömmu minnar sem er dáin. 

Höfundur er móðir sem horfir til framtíðar og er í 3. sæti á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×