Skoðun

Um hvað snýst yfir­vofandi lækna­verk­fall - hvað ber eigin­lega á milli samnings­aðila?

Theódór Skúli Sigurðsson skrifar

Óðfluga styttist í verkfall lækna og lítið að frétta af gangi í kjarasamningsviðræðum, milli samninganefndar ríkisins og Læknafélags Íslands. Líkurnar aukast því með hverjum deginum að rúmlega 1200 læknar á opinberum heilbrigðisstofnunum og heilsugæslum, neyðist til verkfallsaðgerða 25.nóvember næstkomandi, með tilheyrandi óþægindum fyrir samfélagið.

En hverjar eru eiginlega meginkröfur lækna í núverandi kjarasamningsviðræðum?

Í fyrsta lagi, krefjast læknar þess að fá betri vinnutíma líkt og aðrir opinberir starfsmenn með styttingu vinnuvikunnar. Í öðru lagi, krefjast læknar þess að grunnlaun þeirra verði leiðrétt í samræmi við launaþróun annarra samanburðarstétta, eftir að hafa dregist aftur úr síðustu ár. Í þriðja lagi, krefjast læknar þess að úrbætur verði gerðar á kjörum lækna á gæsluvöktum, en umbun fyrir útköllum og símtöl, alla daga og nætur ársins, er ekki í neinu samræmi við sífellt rof á eðlilegri hvíld.

Í dag, endurspegla laun lækna á Íslandi engan veginn þann tíma sem menntun þeirra tekur eða ábyrgð og álag í starfi. Sívaxandi krafa samfélagsins, um heilbrigðisþjónustu án tafar og án mistaka, er farin að taka sinn toll, á sama tíma og aldrei hefur verið skilgreint hvað sé eðlilegur fjöldi sjúklinga í umsjá hvers læknis á opinberum heilbrigðisstofnum. Afleiðingarnar eru að í núverandi starfsumhverfi hafa aldrei jafnmargir læknar upplifað einkenni kulnunar, veikindafjarverur lækna náð sögulegu hámarki og erfiðlega gengur að manna lausar læknastöður á heilbrigðisstofnunum.

Kröfur Læknafélags Íslands eru raunhæfar og sanngjarnar, bera vott um nýja tíma og áherslur, þar sem gerð er krafa um eðlilega hvíld fyrir unnin störf, til að tryggja velferð lækna og fjölskyldna þeirra.

Allir stjórnmálaflokkar landsins verða dæmdir út frá yfirlýsingum og gjörðum í aðdraganda verkfallsins og komandi þingkosninga, þar sem heilbrigðismál á Íslandi eru aftur í fyrsta sæti yfir helstu áherslumál kjósenda.

Stjórnvöld eru hvött til að stíga inní núverandi samningaviðræður og gefa samninganefnd ríksins það umboð sem þarf, til að klára nýjan kjarasamning við Læknafélag Íslands.

Höfundur er formaður Félags sjúkrahúslækna.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×