Á vef Veðurstofunnar segir að viðvörunin taki gildi klukkan sex á föstudagsmorgni og gildi fram á aðfararnótt sunnudagsins.
Búist er við stormi eða roki á norðanverðu landinu og mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll.
„Einnig er spáð talsverðri eða mikilli ofankomu og skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum bæði á fjallvegum sem og á láglendi. Samgöngutruflanir líklegar. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Gular viðvaranir eru einnig í gildi núna á stórum hluta landsins vegna sunnan og suðvestan hvassviðris á stærstum hluta landsins.