Ísland þarf sigur sem og treysta á að Wales tapi stigum gegn Tyrklandi á útivelli til þess að stilla upp hreinum úrslitaleik við Wales í Cardiff um umspilssæti fyrir A-deild Þjóðadeildarinnar en fjögur stig skilja nú liðin að.
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson er mættur aftur í landsliðið eftir langa fjarveru vegna meiðsla og er það kærkomið fyrir landsliðið að fá mann með hans reynslu aftur inn.
„Klárlega. Hann býr yfir ákveðnum drifkrafti,” segir Hareide um Aron í samtali við íþróttadeild. „Býr að þessari áralöngu reynslu sem fyrirliði og það er mjög náttúrulegt fyrir hann að snúa aftur í landsliðið og smella þar beint inn. Hann er maðurinn sem heldur liðsfélögum sínum á tánum. Hann er okkur mjög mikilvægur.“
En er Aron klár í að byrja gegn Svartfellingum?
„Já hann lítur vel út. Er klár. Hann er búinn að spila tvo leiki í Meistaradeild Asíu í aðdraganda verkefnisins. Hann er heill heilsu og það er mikilvægt eftir að hafa glímt við meiðsli yfir lengri tíma. Honum hlakkar til að láta til sín taka í leiknum.“
Leikurinn við Svartfellinga fer fram í Niksic og felst hættulegur andstæðingur í heimamönnum sem, þrátt fyrir að vera stigalausir, hafa verið að taka skref upp á við.
„Það er ekki auðvelt verk að mæta þeim. Þeir búa að góðum frammistöðum bæði frá leik sínum gegn Wales sem og Tyrklandi. Mér finnst þeir hafa bætt sig frá því að við mættum þeim á Laugardalsvelli en það höfum við einnig gert. Við áttum skilið fleiri stig en við náðum í úr síðasta verkefni og verðum að slá frá okkur núna. Sigra Svartfjallaland til þess að eiga möguleika gegn Wales.“
Fyrri leik liðanna á Laugardalsvelli lauk með 2-0 sigri Íslands þar sem að bæði mörk okkar manna komu úr föstum leikatriðum. Í samtali við íþróttadeild sagði Robert Prosinecki, þjálfari Svartfellinga að þeir hefðu farið sérstaklega yfir föstu leikatriði Íslands í aðdraganda leiksins. Er Hareide klár með einhver brögð upp í erminni hvað föstu leikatriðin varðar fyrir leik kvöldsins?
„Já hver veit. Föstu leikatriðin gengu upp hjá okkur í fyrri leiknum en núna tel ég okkur hafa bætt sóknarleik okkar, höfum skorað sjö mörk í þessari Þjóðadeild, meðal annars mörk gegn Wales og Tyrklandi. Við erum sannfærðir um að geta skilað góðum leik gegn Svartfjallalandi.“
Svartfellingar verða án sinnar helstu stjörnu, fyrirliðans Stevan Jovetic sem tekur út leikbann í dag. Hareide segir það högg fyrir Svartfjallaland en einbeiting íslenska liðsins hefur farið á eigin leik í aðdraganda leiksins.
„Jovetic er góður leikmaður sem býr yfir mikilli reynslu en höfum lítið hugsað um einst leikmenn Svartfjallaland. Fókusinn hefur verið á okkar leik, okkar lið og við erum klárir."