Tíska og hönnun

Ó­gleyman­legt að vinna fyrir Rihönnu

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Förðunarfræðingurinn og hárgreiðslukonan Tinna Empera hefur upplifað ýmis ævintýri í starfi sínu.
Förðunarfræðingurinn og hárgreiðslukonan Tinna Empera hefur upplifað ýmis ævintýri í starfi sínu. Aðsend

Förðunarfræðingurinn og hárgreiðslukonan Tinna Empera hefur haft áhuga á tísku frá blautu barnsbeini og ólst upp við það að þora að hugsa stórt. Hún flutti til New York fyrir þrettán árum síðan og hefur tekið þátt í ýmsum ævintýralegum verkefnum. Blaðamaður ræddi við Tinnu um lífið úti.

Hvenær fluttir þú fyrst út og hver var kveikjan að því?

Ég fékk snemma mikinn áhuga á tísku því ég ólst upp í ljósmyndastúdíói Sissu. Mamma kynnti mig fyrir þessum heimi og hefur alltaf hvatt mig til að hugsa stórt. Hún gaf mér ferð til New York í jólagjöf árið 2010.

Við fórum snemma í febrúar 2011 og ég varð ástfanginn af New York um leið. Orkan í borginni er einstök og ég sá strax að tækifærin væru stór og krefjandi, eitthvað sem ég hafði verið að leita að. Ég var flutt til Brooklyn í september sama ár.

Tinna flutti til Brooklyn árið 2011.Aðsend

Hvar ertu búsett núna?

Ég bý og starfa til skiptis í New York og Hamborg. Ég kynntist þýskum manni í Miami árið 2020 og til að gera langa sögu stutta þá bý ég nú með honum í Hamborg þegar ég er ekki að störfum í New York.

Tinna býr með kærasta sínum í Hamborg en starfar líka mikið í New York.Aðsend

Við hvað starfarðu?

Ég hef starfað sjálfstætt sem hár og förðunar artisti í rúman áratug. Undanfarið hafa verkefni verið mjög fjölbreytt. 

Tinna að störfum.Aðsend

Sem dæmi var ég lykil förðunarfræðingurinn (e. key mua) fyrir Sól Hansdóttir á tískuvikunni í Kaupmannahöfn í ágúst, ég farðaði fyrir COS á haust/vetur 2024 tískusýningunni þeirra í New York, var lykil hár-og förðunarfræðingur (e. key hair & MUA) fyrir E.l.f. Cosmetics auglýsingaherferð í Þýskalandi, gerði auglýsingaherferð fyrir Saks Fifth Avenue í Bandaríkjunum og gerði nýlega myndaþátt með Silju Magg fyrir Vogue Arabia.

Hvenær byrjaðir þú í hárgreiðslu- og förðunarbransanum?

Ég útskrifaðist úr Förðunarskóla EMM árið 2009 og byrjaði að vinna hjá MAC Cosmetics á Íslandi samhliða hárgreiðslunámi í Tækniskóla Reykjavíkur. Ég kláraði hárgreiðslunámið 2011 og byrjaði strax að vinna eftir að ég flutti til New York sama ár.

Fyrstu árin mín í New York einbeitti ég mér að því að aðstoða stóra hárgreiðslu- og förðunar listamenn í ýmsum verkefnum eins og fyrir tískuviku í New York, auglýsingaherferðir og tökur fyrir tískutímarit til að öðlast fjölbreytta reynslu.

Ég starfaði líka á hárgreiðslustofu í SoHo í sex ár þar sem ég lærði bæði mikinn aga og öðlaðist dýrmæta reynslu á ólíkum hárgerðum, aðferðum og tækni.

Tinna hefur sankað að sér dýrmætri reynslu á síðastliðnum rúma áratuginum.Aðsend

Hvað finnst þér skemmtilegast við að búa og starfa erlendis?

Það er fjölbreytnin. Fjölbreytni mannlífs, menningar og tækifæra. Ég elska að vinna með og læra af hæfileikaríku fólki, ég elska að ferðast og upplifa heiminn í gegnum vinnuna mína.

Tinna elskar fjölbreytni starfsins og að fá að kynnast alls kyns hæfileikaríku fólki.Aðsend

En mest krefjandi?

Það er alltaf mest krefjandi að vera langt frá fólkinu sínu heima á Íslandi. Og sundlauganna! Ég elska íslenskt sund.

Hvað er skemmtilegasta verkefnið hingað til?

Það sem kemur strax upp í hugann er þegar ég var bókuð í tíu daga til að sjá um hár fyrir „beauty campaign“. 

Þegar ég mætti á sett þurfti ég að skrifa undir NDA (trúnaðarsamning) og komst að því á staðnum að Rihanna væri að gefa út förðunarlínu og við vorum þarna komin til að skjóta fyrstu auglýsingaherferðina sem kynnti línuna fyrir heiminum. Það var eftirminnilegt verkefni sem ég er mjög stolt af.

Förðun sem Tinna gerði fyrir Fenty Beauty, förðunarlínu Rihönnu.Aðsend

Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér?

Ég trúi á sjálfa mig og tækifærin sem ég á eftir að uppgötva. Eitt sem mig hefur alltaf langað til að prófa er að túra með poppstjörnu um heiminn og sjá áhrifamátt förðunar og hárs á enn þá stærri hátt.

Tinna er með stóra drauma og trúir á sjálfa sig.Aðsend





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.