Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að á norðanverðu landinu séu élin nokkuð dimm með köflum og geti valdið versnandi akstursskilyrðum. Útlit er fyrir sleitulitla snjókomu á Austurlandi og Austfjörðum í kvöld og í nótt.
Frost á landinu verður yfirleitt á bilinu tvö til níu stig.
„Á morgun er litlar breytingar að sjá á austurhelmingi landins, norðan strekkingur eða allhvass vindur þar og áfram él, en yfirleitt þurrt á Suðausturlandi. Vestanlands dregur hins vegar bæði úr vindi og ofankomu.
Á fimmtudag verður áttin svo austlæg eða breytileg, 5-13 m/s og minniháttar él norðan- og austantil, annars þurrt að kalla, en samkvæmt nýjustu spám bætir í ofankomu norðaustanlands um kvöldið,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Gengur í norðan 10-18 m/s suðaustan- og austantil, annars hægari vindur. Víða él, en bjart að mestu sunnanlands. Frost 2 til 9 stig.
Á fimmtudag: Norðaustan og norðan 5-13. Dálítil él norðan- og austantil, annars þurrt að kalla. Frost 2 til 13 stig, kaldast inn til landsins.
Á föstudag: Norðaustan 5-13 og él, en léttir til sunnanlands. Áfram kalt í veðri.
Á laugardag: Norðaustlæg átt og él, en víða þurrt og bjart á Suðvestur- og Vesturlandi. Frost 1 til 9 stig.
Á sunnudag og mánudag: Norðlæg eða breytileg átt og él á víð og dreif. Svalt í veðri.