Skoðun

Heil­brigðis­kerfið - plan Sam­fylkingarinnar eða sinnu­leysi Sjálf­stæðis­flokksins?

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar

Í heilbrigðiskerfinu er ein birtingarmynd stefnu- og sinnuleysis Sjálfstæðisflokksins og fráfarandi ríkisstjórnar sú að á Íslandi er einungis um 50% þjóðarinnar með fastan heimilislækni en til samanburðar er hlutfallið 95% í Noregi. Á vakt Sjálfstæðisflokksins og fylgitungla hans í ríkisstjórn heldur innviðaskuldin í heilbrigðiskerfinu bara áfram að vaxa - og mun gera það áfram undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna er svo brýnt að knýja fram breytingar í kosningunum 30. nóvember. Sterk Samfylking er öruggasta tryggingin fyrir breyttum og betri stjórnarháttum á næsta kjörtímabili.

Sjálfstæðisflokkurinn býður upp á gamalt vín á nýjum belgjum

Þrátt fyrir þessa alvarlegu stöðu í heilbrigðiskerfinu heldur Sjálfstæðisflokkurinn bara áfram með sömu innantómu og óábyrgu loforðin, sem engu skila nema fyrir eignafólkið og fólkið með hæstu tekjurnar. Þeir lofa skattalækkunum en á sama tíma mikilli innviðauppbyggingu. Þarna fer ekki saman hljóð og mynd og Sjálfstæðisflokkurinn leikur þennan óábyrga leik fyrir hverjar kosningar, sumsé býður upp á gamalt vín á nýjum belgjum. Og eina raunverulega mótvægið við þetta ábyrgðar- og sinnuleysi Sjálfstæðisflokksins er skýrt og ábyrgt plan Samfylkingarinnar. Plan sem unnið hefur verið í samstarfi við fólkið í landinu undir forystu Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar. Í því eru ekki boðaðar neinar töfra- eða skyndilausnir á flóknum úrlausnarefnum eins og mörgum stjórnmálaflokkum hættir til að gera í kosningabaráttu. Við erum meðvituð um að þetta mun taka tíma enda nær planið til tveggja kjörtímabila og við viljum fá þjóðina með okkur í verkefnið.

Jafnt aðgengi óháð efnahag og búsetu eða aukinn einkarekstur og einkavæðing

Samfylkingin vill styrkja grunnstoðir heilbrigðiskerfisins fyrir alla landsmenn. Við fundum svo vel fyrir því á fundum okkar um heilbrigðismál út um allt land að fólk á samleið með okkur jafnaðarfólki varðandi það grundvallaratriði að heilbrigðiskerfið okkar á að grípa allt fólk þegar heilsan brestur óháð efnahag, bakgrunni eða búsetu. Þetta er lífsskoðun okkar jafnaðarfólks og inngróið í okkar DNA á meðan flokkar á hægri vængnum tala fyrir auknum einkarekstri og einkavæðingu og er tilbúið að gefa afslátt á þessu grundvallaratriði. Þar skilur á milli og kjósendur geta treyst Samfylkingunni til að standa vörð um heilbrigðiskerfi þar sem jafn aðgangur óháð efnahag, bakgrunni og búsetu er grunngildið.

Þjóðarmarkmið og örugg skref

Í öruggum skrefum Samfylkingarinnar í heilbrigðis- og öldrunarmálum setjum við fram fimm þjóðarmarkmið; fólk fái fastan heimilislækni og heimilisteymi, þjóðarátak í umönnun eldra fólks, öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu um land allt, meiri tími með sjúklingnum og að við tökum ábyrgð á heilbrigðiskerfinu í heild. Til þess að ná þessu metnaðarfullu þjóðarmarkmiðum setjum við fram örugg skref að hverju þjóðarmarkmiði sem hægt er að lesa um í útspili Samfylkingarinnar í heilbrigðis- og öldrunarmálum, https://xs.is/orugg-skref.

Skýrir valkostir í kosningunum

Eftir sjö ár þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengst af ráðið ferð ríkisfjármála er þörf á uppfærslu í heilbrigðiskerfinu. Og þar er Samfylkingin tilbúin til verka með skýrt plan að leiðarljósi. Valkostirnir í þessum kosningum eru skýrir; áframhaldandi sinnuleysi Sjálfstæðisflokksins gagnvart heilbrigðiskerfinu eða plan Samfylkingarinnar. Það er þörf á

breytingum og nýju upphafi. Öruggasta leiðin fyrir kjósendur til að tryggja breytingar að loknum kosningum í þágu almannahagsmuna á kostnað sérhagsmuna er stuðningur við Samfylkinguna. Og veiti kjósendur okkur umboð í kosningunum 30. nóvember nk. þá mun Samfylkingin undir styrkri forystu Kristrúnar Frostadóttur á fyrsta degi nýrrar ríkisstjórnar hefjast handa við að reisa heilbrigðiskerfið við eftir áralangt sinnuleysi Sjálfstæðisflokksins.

Höfundur er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, kennari og skipar 4. sætið á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×