Handbolti

Framarar náðu toppliðunum að stigum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Framarar eru að gera góða hluti í Olís deildinni.
Framarar eru að gera góða hluti í Olís deildinni. Vísir/Hulda Margrét

Framarar eru í hópi þriggja efstu liðanna í Olís deild karla í handbolta eftir sannfærandi heimasigur á Stjörnunni í kvöld.

Fram er með fimmtán stig í töflunni eftir sigurinn alveg eins og bæði FH og Afturelding.

Fram vann leikinn með níu marka mun, 35-26, eftir að hafa verið sex mörkum yfir í hálfleik, 18-12.

Þetta var þriðji sigur Framliðsins í röð og sjöundi sigur liðsins í ellefu leikjum í deildinni í vetur.

Það voru margir að skila til Framliðsins í þessum leik.

Ívar Logi Styrmisson og Marel Baldvinsson voru markahæstir með fimm mörk en Dagur Fannar Möller og Reynir Þór Stefánsson skoruðu báðir fjögur mörk.

Arnór Máni Daðason varði líka mjög vel í markinu, alls 19 skot og 42 prósent skota sem á hann komu. Hann varði þrjú af fimm vítum sem hann reyndi við í kvöld.

Hans Jörgen Ólafsson var markahæstur hjá Stjörnunni með fimm mörk en þeir Jóel Bernburg, Pétur Árni Hauksson og Ísak Logi Einarsson skoruðu fjögur mörk hver.

Adam Thorstensen varði tvö víti í marki Stjörnunnar sem þýddi að það voru varin fimm víti í leiknum og vítaskyttur liðanna nýttu aðeins fjögur af níu vítum sínum í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×