Fótbolti

Ævin­týri Róberts og fé­laga heldur á­fram

Sindri Sverrisson skrifar
Róbert Orri Þorkelsson gæti verið á leið upp í norsku úrvalsdeildina með Kongsvinger en óvissa ríkir um framhaldið hjá honum.
Róbert Orri Þorkelsson gæti verið á leið upp í norsku úrvalsdeildina með Kongsvinger en óvissa ríkir um framhaldið hjá honum. Vísir

Róbert Orri Þorkelsson átti sinn þátt í því að koma Kongsvinger skrefi nær norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag, með 2-1 útisigri gegn Egersund.

Kongsvinger hafnaði í 6. sæti norsku 1. deildarinnar áður en deildakeppninni lauk, en aðeins tvö efstu lið deildarinnar komust beint upp í úrvalsdeild.

Liðið náði hins vegar síðasta sætinu inn í umspilið um að komast upp í úrvalsdeildina. Kongsvinger þurfti svo að byrja á því að slá út liðið í 5. sæti, Lyn, og gerði það með 2-1 sigri eftir framlengingu, þar sem Róbert varð fyrir því óláni að skora afar slysalegt sjálfsmark.

Í dag sló liðið svo út Egersund, sem hafnaði í 4. sæti, einnig með 2-1 útisigri.

Næst þarf Kongsvinger svo að slá út Moss en liðin mætast á heimavelli Moss eftir viku.

Sigurliðið úr þeim leik fer svo loks í einvígi við þriðja neðsta liðið úr úrvalsdeildinni, um að spila í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Róbert Orri lék allan leikinn í dag en hann hefur verið að láni hjá Kongsvinger frá MLS-liði Montreal. Kanadíska félagið hefur nú tilkynnt að Róbert snúi ekki aftur til félagsins og því ríkir óvissa um framhaldið hjá varnarmanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×