Erlent

Hezbollah svarar Ísrael með um­fangs­mikilli loft­á­rás

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íbúar standa við húsarústir byggingar sem varð fyrir árás Ísraelshers á Beirút í gær.
Íbúar standa við húsarústir byggingar sem varð fyrir árás Ísraelshers á Beirút í gær. AP/Hussein Malla

Sjö særðust í umfangsmikilli árás Hezbollah á Ísrael í gær en samtökin eru talin hafa skotið um 250 eldflaugum og drónum yfir landamærin. Sumar eldflauganna náðu til Tel Aviv.

Um er að ræða viðbrögð við árásum Ísraelsmanna í Beirút.

Einn lést og átján særðust í árásum Ísraelshers á herstöð milli Tyre og Naqoura í gær. Látni var líbanskur hermaður og sögðust talsmenn Ísraelshers harma dauða hans en árásin hefði beinst gegn vígamönnum Hezbollah.

Yfir 40 líbanskir hermenn eru sagðir hafa látist í árásum Ísraelshers til þessa, jafnvel þótt líbanski herinn hafi haldið sig á hliðarlínum átakanna.

Hezbollah hófu árásir á Ísrael í kjölfar árása Hamas á byggðir Ísraelsmanna 7. október í fyrra. Síðan hafa deiluaðilar skiptst á að ráðast á hinn en stigmögnun varð á átökunum þegar Ísraelsmenn réðust inn í Líbanon á haustmánuðum.

Yfirlýstur tilgangur er að gera byggðir við landamærin öruggar þannig að íbúar geti snúið aftur.

Talið er að um 3.700 hafi látist í árásum Ísraela hingað til.

Viðræður hafa staðið yfir um vopnahlé og vonir voru uppi um að aðilar myndu ná saman. Josep Borrell, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins í utanríkismálum, sagðist hins vegar um helgina ekki sjá að stjórnvöld í Ísrael hefðu raunverulegan áhuga á að komast að samkomulagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×