Erlent

Ísrael og Hezbollah sögð við það að gera vopna­hlé

Jón Þór Stefánsson skrifar
Ísraelsríki gerði loftárás á Beirút í dag.
Ísraelsríki gerði loftárás á Beirút í dag. EPA

Ísraelsríki og Hezbollah-samtökin eru sögð nálgast samkomulag um vopnahlé. Axos-fréttastofan hefur eftir bandarískum embættismanni að skilmálar vopnahlésins liggi fyrir þó enn eigi eftir að staðfesta þá.

Haft er eftir embættismanninum að búist sé við því að vopnahléið verði samþykkt af Öryggisráði Ísraels á morgun, þriðjudag.

Í drögum skilmálanna felst sextíu daga aðlögunartímabil sem mun snúast um að Ísraelsher færi sig úr suðurhluta Líbanon, en jafnframt verði tilfærslur á herjum og vopnum Hezbollah og Líbanons.

Bandaríkin myndu sinna eftirlitshlutverki í þessu aðlögunartímabili.

Degi eftir árás Hamas í Ísrael þann 7. október í fyrra skutu Hezbollah-liðar eldflaugum að Ísrael. Það var síðan 1. október á þessu ári sem Ísraelsmenn réðust inn í Líbanon.

Talið er að rúmlega 3500 Líbanir hafi látist í átökum ríkjanna síðasta rúma ár, og 15000 slasast. Á móti kemur er talið að um 140 ísraelskir hermenn og borgarar hafi látið lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×