Viðskipti innlent

Af­koma Orku­veitunnar 44 prósentum betri en í fyrra

Árni Sæberg skrifar
Orkuveitan er til húsa að Bæjarhálsi.
Orkuveitan er til húsa að Bæjarhálsi. VÍSIR/VILHELM

Rekstur Orkuveitunnar skilaði 5,1 milljarðs króna afgangi fyrstu níu mánuði ársins. Það er 44 prósenta aukning frá sama tímabili fyrra árs og góð undirstaða fyrirhugaðs vaxtar Orkuveitunnar á næstu árum, að mati Sævars Freys Þráinssonar forstjóra.

Í tilkynningu Orkuveitunnar segir að árshlutareikningur samstæðu Orkuveitunnar hafi verið samþykktur af stjórn í gær. Innan samstæðunnar eru Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarann og Carbfix, auk móðurfélagsins.

Veltufé frá rekstri fyrstu níu mánuði ársins hafi numið 20,7 milljörðum króna og aukist um 5,2 prósent milli ára. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum hafi numið 21,4 milljörðum króna á tímabilinu sem sé 20 prósenta aukning frá sama tímabili ársins 2023.

Haft er eftir Sævari Frey Þráinssyni að hann sjái margt jákvætt í árshlutareikningunum fyrir nauðsynlegan vöxt starfseminnar sem boðaður var í fjárhagsspá samstæðunnar í síðasta mánuði. 

„Þjónusta Orkuveitunnar og dótturfyrirtækjanna er traust og það standa yfir fjölmörg verkefni svo hún verði það um fyrirsjáanlega framtíð. Þeirra á meðal er aukin stafræn þjónusta, áframhaldandi uppbygging fyrir orkuskiptin og á dögunum fengum við góðar fréttir af öflun aukins vatns í hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu. Allt styður þetta við að Orkuveitan sé aflvaki sjálfbærrar framtíðar, sem eru þau einkennisorð sem við höfum sameinast undir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×