Handbolti

ÍBV (eða Haukar) í erfiðan slag í bikarnum

Sindri Sverrisson skrifar
Kári Kristján Kristjánsson og félagar í ÍBV mæta að óbreyttu Íslandsmeisturum FH eða efsta liði 1. deildarinnar, Selfossi, í næsta leik í bikarnum.
Kári Kristján Kristjánsson og félagar í ÍBV mæta að óbreyttu Íslandsmeisturum FH eða efsta liði 1. deildarinnar, Selfossi, í næsta leik í bikarnum. vísir/Anton

Ríkjandi bikarmeistarar Vals í handbolta karla þurfa að slá út Gróttu og svo Fram til þess að komast í fjögurra liða úrslitavikuna í Powerade-bikarnum. Dregið var í 8-liða úrslit í dag.

Enn á eftir að útkljá ýmislegt áður en 8-liða úrslitin geta hafist en ráðgert er að þau fari fram 17. og 18. desember, samkvæmt tilkynningu HSÍ.

Áður en að því kemur á eftir að klára 16-liða úrslitin, með leik 1. deildarliðs Selfoss við Íslandsmeistara FH, og leik Vals og Gróttu, en báðir leikir fara fram 9. desember.

Þá á eftir að koma í ljós hvort að áfrýjun Hauka breyti því að ÍBV hefur verið dæmdur 10-0 sigur í leik liðanna á Ásvöllum fyrir rúmri viku, en að óbreyttu verða það Eyjamenn sem spila í 8-liða úrslitunum og gætu þar mætt Íslandsmeisturunum.

Hér að neðan má sjá leikina í 8-liða úrslitunum, sem eins og fyrr segir verða spiluð í desember. Undanúrslitin og úrslitin fara svo fram 26. febrúar og 1. mars.

Átta liða úrslit:

  • Fram - Valur eða Grótta
  • ÍBV (eða Haukar) - Selfoss eða FH
  • ÍR - Stjarnan
  • KA - Afturelding



Fleiri fréttir

Sjá meira


×