Fótbolti

„Fag­mann­leg og heil­steypt frammi­staða hjá okkur“

Hjörvar Ólafsson skrifar
465873541_10159964299292447_4207572118223101770_n

Arnar Bergmann Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var sáttur við að ná í stig til Jerevan þegar lærisveinar hans sóttu FC Noah heim í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld. 

„Þetta var mjög fagmannleg frammistaða hjá liði mínu og við gáfum fá sem engin færi á okkur sem er mjög sterkt. Við ákváðum að breyta um leikkerfi í þessum leik til þess að bera virðingu fyrir þessum erfiða útivelli. Þeir eru með góða framherja og mér fannst nauðsynlegt að þétta varnarleikinn aðeins,“ sagði Arnar Bergmann Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, eftir 0-0 jafntefli liðsins gegn FC Noah í fjórðu umferð Sambandsdeildarinnar. 

„Við fengum flott færi til þess að ná í þrjú stig en það væri græðgi að ganga ekki bara sáttir frá borði með stig frá þessu verkefni. Við vorum meðvitaðir um að við féllum á prófinu þegar við mættum Omonia. Við vildum sýna heilsteyptari leik að þessu sinni og ekki missa einbeitinguna. Það tókst svo sannarlega og er mjög stoltur af strákunum,“ sagði Arnar Bergmann enn fremur. 

„Jón Guðni var frábær í þessum leik sem og fleiri leikmenn. Liðsvinnan í varnarleiknum varð til þess að þeir fundu engar glufur og svo vorum við skarpir í skyndisóknum okkar. Við erum búnir að koma okkar í góða stöðu fyrir framhaldið og þetta stig gæti skipt sköpum þegar upp er staðið. Við getum allavega haldið áfram að láta okkur dreyma,“ sagði þjálfari Víkingsliðsins. 

„Það er hörkuleikur fram undan við Djurgården og við erum bara mjög spenntir fyrir þeim leik. Við sýndum andlegan og likamlegan styrk í leiknum í  kvöld og spilamennskan var flott, sérstaklega þegar tekið er mið af því hvað það er langt síðan við spiluðum síðasta leik. 

Það er von á eitthvað um 500 Svíum á leikinn gegn Djurgården og við erum búnir að koma okkur í þá stöðu að vera með í baráttunni um sæti í umspilinu sem er bara frábært. Þetta verður mjög skemmtilegt verkefni og við mætum fullir sjálfstrausts,“ segir hann um framhaldið hjá Fossvogsfélaginu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×