Handbolti

Hnefa­högg liðsfélaga gæti tekið frá honum HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimsmeistaramótið er í hættu hjá Matej Mandic eftir að hann fékk hnefahögg frá liðsfélaga sínum hjá HC Zagreb en atvikið varð í búningsklefa króatíska liðsins.
Heimsmeistaramótið er í hættu hjá Matej Mandic eftir að hann fékk hnefahögg frá liðsfélaga sínum hjá HC Zagreb en atvikið varð í búningsklefa króatíska liðsins. Getty/Sanjin Strukic

Það gekk ýmislegt á í búningsklefa króatíska handboltafélagsins RK Zagreb eftir leik liðsins í Meistaradeildinni í vikunni. Eftirmálin eru allt annað en góðar fréttir fyrir landsliðsþjálfarann Dag Sigurðsson.

Tveir leikmenn RK Zagreb hafa verið settir í agabann að því virðist fyrir að slást í klefanum en annar leikmaður til viðbótar meiddist það illa að hann gæti verið frá í margar vikur. Danski blaðamaðurinn Rasmus Boysen fjallar um málið.

Það sem er á hreinu er að tveir leikmenn RK Zagreb, Milos Kos og Zvonimir Srna, eru komnir í tímabundið bann. Þeir verða í banninu á meðan málið verður rannsakað af félaginu.

Króatíski miðilinn 24sata Sport sagði frá slagsmálum í búningsklefa liðsins.

Liðsfélagar Milos Kos gerðu samkvæmt upplýsingum blaðsins athugasemd við slaka frammistöðu hans og hann tók því mjög illa.

Króatíski landsliðsmarkvörðurinn Matej Mandic sagði eitthvað við Kos og hann svaraði með því að gefa honum hnefahögg í andlitið.

Kos meiddi Mandic það mikið að markvörðurinn verður frá í fjórar til sex vikur og gæti misst af HM í janúar. Slæmar fréttir fyrir landsliðsþjálfarann Dag Sigurðsson.

Eftir þetta blönduðu aðrir liðsfélagar þeirra sér í málið en það endaði með því að Zvonimir Srna sló Kos nokkrum sinnum. Það er þess vegna sem Srna er líka kominn í bann.

Nantes vann leikinn 25-22 en hann var spilaður í Króatíu. Milos Kos nýtti aðeins eitt af sjö skotum sínum í leiknum. Mandic varði 9 skot.

Zagreb hefur aðeins unnið tvo af níu leikjum sínum í Meistaradeildinni í vetur og er í neðsta sæti í B-riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×