Sumir ákváðu að sækjast ekki eftir endurkjöri en aðrir náðu ekki inn í þingkosningunum í gær.
Þingflokkar Vinstri grænna og Pírata detta út eins og þeir leggja sig, þrettán þingmenn alls. Flokkarnir náðu engum þingmönnum inn.
Framsóknarflokkurinn tapaði átta þingmönnum og meðal þeirra sem eiga ekki afturkvæmt þrátt fyrir að hafa verið í framboði eru þrír ráðherrar. Þetta eru Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, er meðal Sjálfstæðismanna sem eiga ekki afturkvæmt og þá náði Jakob Frímann Magnússon ekki aftur inn á þing, en hann gekk í raðir Miðflokksins eftir að hafa verið látinn taka poka sinn úr Flokki fólksins.
Fréttin hefur verið uppfærð en ranglega var greint frá því að Stefán Vagn Stefánsson Framsóknarflokki hefði ekki náð inn. Mynd af honum birtist þannig með fréttinni en inn á vantaði Andrés Inga Jónsson Pírata.