Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi á Facebook.
Þar er fólk í nágrenni svæðisins beðið um að vera á varðbergi og tilkynna til lögreglunnar telji það ís eða vatn farið að nálgast garða eða húsnæði. Þau sem eru með kjallara undir húsum sínum eru einnig beðin um að fylgjast með ástandinu í þeim.
Von á veðrabrigðum
„Enn er farvegur Ölfusár fullur af ís frá ósum og allt upp fyrir Ölfusárbrú. Einstaka íslausar vakir eru á ánni. Elstu menn muna vart eftir svo miklum ís við Básinn og upp fyrir brú, að Jóruklett,“ segir í færslu frá Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands fyrr í kvöld.

Þar kemur einnig fram að vatnshæðarmælirinn hafi farið upp í 4,99 metra um klukkan 15 í dag en hafi lækkað um einhverja tugi sentímetra síðan þá. Þetta hafi leitt til þess að vatn tók að renna utan við brúarstöpulinn á austanverðu og einnig yfir malbikaðan göngustíg neðan við Bakkahverfið á Selfossi.
Þetta sé hæsta vatnsstaða sem mælst hefur í ánni við Selfoss í mörg ár.
„Von er á veðrabrigðum seinni partinn á morgun og fylgir þeim skammvinn hlýindi. Það verður fróðlegt að sjá hvort að áin nái að ryðja af sér einhverjum ís í kjölfar þess,“ segir einnig í færslunni.
Íshrannirnar hafi laðað að heimamenn og fleiri og er bent á að það sé stórhættulegt að ganga upp á ísinn. Aðstæður við árbakkann geti einnig breyst mjög hratt og því mikilvægt að vera ekki upp við hrannirnar.
