Sport

Annar leik­maður liðsins sem missir barn á síðustu mánuðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sondra og Trent Williams með son sinn sem fæddist andvana. Trent spilar með San Francisco 49ers sem hefur átt mjög erfitt ár.
Sondra og Trent Williams með son sinn sem fæddist andvana. Trent spilar með San Francisco 49ers sem hefur átt mjög erfitt ár. Getty/Cliff Welch/Twitter

Eiginkona sóknarlínumannsins Trent Williams greindi frá því í gær að hún hafi fætt andvana barn. Tveir leikmenn NFL liðsins San Francisco 49ers hafa þar með misst barn á síðustu mánuðum.

Þetta hefur verið erfitt tímabil fyrir San Francisco 49ers, lítið sem ekkert gengið inn á vellinum og margir leikmenn liðsins hafa meiðst illa.

Ofan á það eru tveir leikmenn að glíma við mikla sorg eftir að hafa misst barn.

Sondra Williams, eiginkona Trent, sagði frá því á samfélagmiðlum að hún hafi eignast soninn Trenton Jr. 24. nóvember síðastliðinn en að hann hafi fæðst andvana.

Missti einnig tvíburabróðurinn

Hún var komin 35 vikur á leið en hún hafði einnig misst tvíburabróðir Trenton Jr. fyrr á meðgöngunni.

„Ég þakka guði fyrir að við gátum tengst í þessar 35 vikur sem og að ég fæddi þig og fékk að halda á þér í örmum mínum. Mér líður betur vitandi að þú þjáðist ekki,“ skrifaði Sondra Williams.

Kyle Shanahan, þjálfari San Francisco 49ers, sagði að Trent Williams hafi eytt mestum hlusta af síðustu viku í það syrgja son sinn. Hann hefur líka misst af síðustu leikjum liðsins vegna ökklameiðsla.

Allir standa með honum

„Þetta er eitthvað sem gerðist í síðustu viku. Hann var á sjúkrahísinu með henni og fékk að hitta hann og kveðja. Hann hefur þurft að glíma við þetta allt saman en við viljum allir styðja hann og standa með honum á þessum erfiðu tímum,“ sagði Shanahan.

Fyrr í vetur hafði varnarmaðurinn Charvarius Ward sagt frá því að hann missti eins árs gamla dóttur sína, Amani Joy. Hún fæddist með hjartavandamál. Ward missti í kjölfarið af þremur leikjum liðsins.

Erfitt fyrir alla

Leikurinn á móti Buffalo Bills um helgina var fyrsti leikur Ward eftir að hafa gengið í gegnum þetta.

„Þetta er erfitt fyrir þjálfara. Þetta er erfitt sem vinur og sem fjölskyldumeðlimur. Þetta er erfitt fyrir alla. Við eyðum miklum tíma saman og það er það góða við það að vera hluti af fótboltaliði. Í hverju sem þú lendir, góðu eða slæmu, þá förum við í gegn um það saman,“ sagði Shanahan.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×