Lengi hefur verið á kreiki orðrómur þess efnis að Stockport County ætlaði sér að krækja í Benóný Breka og nú hefur verið staðfest að sá orðrómur var á rökum reistur.
Benóný Breki skrifar undir þriggja og hálfs árs samning við félagið en hann verður leikmaður félagsins 1. janúar svo framarlega sem hann fái atvinnuleyfi strax.
Benóný Breki fór á kostum með KR á síðasta tímabili í Bestu deildinni hér heima þar sem að hann skoraði 21 mark í 26 leikjum. Ellefu þeirra komu í úrslitakeppni neðri hluta deildarinnar en KR endaði í áttunda sæti Bestu deildarinnar.
Stockport County leikur í C-deildinni á Englandi og er sem stendur í 5.sæti sem mun veita þátttökurétt í umspili um laust sæti í ensku B-deildinni að lokinni deildarkeppni á yfirstandandi tímabili.
Þjálfari liðsins er Englendingurinn David Challinor sem hafði þjálfað lið á borð við AFC Fylde og Hartlepool United í neðri deildum Englands áður en að hann tók við þjálfun Stockport County árið 2021 en hann er fyrrverandi leikmaður liðsins.
Stockport Conty er rótgróið félag á Englandi sem á sér langa sögu. Liðið vann ensku D-deildin á síðasta tímabili og stefnir nú á að komast beint upp í ensku B-deildina.
Benóný Breki á að baki 50 leiki í efstu deild hér á landi og hefur í þeim leikjum skorað 30 mörk. Þá á hann á ferilskrá sinni landsleiki fyrir U21, U19 og U17 ára landslið Íslands.
Hann spilaði með Gróttu og Breiðabliki í yngri flokkunum en gekk svo til liðs við ítalska félagið Bologna árið 2021 og lék þar með yngri liðum félagsins áður en hann sneri aftur hingað til lands og þá til KR.