Íslenski boltinn

Logi Ólafs kveður eftir áratugastarf í MH

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Ólafsson þjálfaði síðst FH í efstu deild á Íslandi.  Hér má sjá hann á hliðarlínunni í leik hjá liðinu í Kaplakrika.
Logi Ólafsson þjálfaði síðst FH í efstu deild á Íslandi.  Hér má sjá hann á hliðarlínunni í leik hjá liðinu í Kaplakrika. Vísir/Hulda Margrét

Logi Ólafsson, fyrrum knattspyrnuþjálfari, var að klára sína síðustu önn sem líkamsræktarkennari við Menntaskólann við Hamrahlíð.

„Eftir farsæla áratugi í MH kveður Logi Ólafsson okkur í dag. Alltaf með marga bolta á lofti. Við þökkum fyrir allt og óskum Loga alls hins besta utan veggja MH,“ segir um starfslok Loga á samfélagsmiðlum skólans.

Logi hélt upp á sjötugsafmælið sitt í síðasta mánuði.

Logi hefur starfað við Menntaskólann við Hamrahlíð síðan á síðustu öld. Þegar hann hóf störf við skólann átti MH ekki íþróttahús en íþróttahús skólans reis loksins árið 2007.

Með fram störfum sínum í MH þá þjálfaði Logi lið eins og FH, KR, Víking, Selfoss og Stjörnuna auk þess að þjálfa bæði karlalandsliðið og kvennalandsliðið.

Hann er sá eini í sögu íslenskrar knattspyrnu sem hefur þjálfað bæði A-landsliðs karla og kvenna sem og unnið Íslandsmeistaratitil hjá bæði körlum og konum.

Logi gerði kvennalið Val að Íslandsmeisturum og hann gerði einnig bæði karlalið Víkings og ÍA að Íslandsmeisturum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×