Íslenski boltinn

Gumma komin heim eftir átta ára fjar­veru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmunda Brynja Óladóttir er komin aftur í vínrautt eftir átta ára fjarveru.
Guðmunda Brynja Óladóttir er komin aftur í vínrautt eftir átta ára fjarveru. @selfossfotbolti

Selfyssingar hafa nú endurheimt eina af bestu fótboltadætrum félagsins.

Guðmunda Brynja Óladóttir hefur ákveðið að snúa aftur heim og spila með Selfossliðinu í 2. deildinni næsta sumar.

Guðmunda Brynja, eða Gumma eins og hún er vanalega kölluð, gerir eins árs samning við knattspyrnudeild Selfoss.

Gumma hóf sinn meistaraflokksferil með Selfyssingum árið 2009. Hún á að baki rúmlega 130 leiki fyrir félagið í deild og bikar. Í þessum leikjum hefur hún gert 82 mörk. Hún á að baki fimmtán A-landsliðsleiki. Hún skoraði eitt mark í þeim og alls átján mörk fyrir íslensku landsliðin.

Gumma gekk í raðir Stjörnunnar frá Selfossi árið 2016 og síðan þá hefur hún spilað með Garðabæjarliðinu, KR og nú síðast HK. Hún var með níu mörk fyrir HK í Lengjudeildinni síðasta sumar.

Gumma er langmarkahæsti leikmaður Selfoss í efstu deild með 44 mörk sem tvöfalt meira en sú næsta á lista sem er Dagný Brynjarsdóttir með 22 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×