Erlent

Um helmingur far­þega komst lífs af

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Viðbragðsaðilar virða fyrir sér brakið.
Viðbragðsaðilar virða fyrir sér brakið. getty

69 farþegar voru innanborðs í farþegaflugvél sem hrapaði í vestur-Kasakstan í morgun. Samkvæmt yfirvöldum létu 38 manns lífið í slysinu en 31 komst lífs af.

Greint var frá flugslysinu í morgun eftir að farþegaflugvél hafði hrapað skammt frá borginni Aktau í Kasakstan. Flugvélin var á vegum Azerbaijan Airlines og á leið frá höfuðborginni Baku til rússnesku borgarinnar Grozny. 

Yfirvöld í Kasakstan og Aserbaídsjan munu koma að rannsókn slyssins.getty

Í frétt BBC er haft eftir flugfélaginu að flugélinni hafi verið beint af leið vegna þoku. Myndefni sýnir vélina nálgast jörðina á ógnarhraða með virkan lendingarbúnað áður en mikill blossi kviknar við brotlendingu. Myndbönd í dreifingu sýna að auki farþega forða sér úr vélinni, margir með sýnilega áverka. 

Í tilkynningu flugfélagsins segir að tilraun hafi verið gerð til nauðlendingar um þremur kílómetrum frá borginni Aktau í Kasakstan. Rússneskir miðlar greina frá því að vélin gæti hafa rekist á hóp fugla áður en hún hrapaði. 

Flug milli Baku og Grozny liggja nú niðri á meðan slysið er rannsakað. Flestir um borð voru frá Aserbaídsjan, en sömuleiðis voru farþegar frá Rússlandi, Kasakstan og Kirgistan. 


Tengdar fréttir

Farþegaflugvél hrapaði í Kasakstan

Farþegaflugvél hrapaði í nágrenni borgarinnar Aktau í Kasakstan í morgun. Fyrstu fréttir gefa til kynna að einhverjir hafi lifað hrapið af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×