Innlent

Vara við svikapósti í nafni Skattsins

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Skatturinn varar við svikapósti sem hefur verið sendur til fólks í nafni stofnunarinnar.
Skatturinn varar við svikapósti sem hefur verið sendur til fólks í nafni stofnunarinnar. Ríkisskattstjóri

Skatturinn hefur varað við svikapóstum í nafni stofnunarinnar sem hafa borist landsmönnum milli jóla og nýárs.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Skattsins. Þar segir að bæði stofuninni sjálfri og lögreglunni hafi borist ábendingar um slíka tölvupósta. 

Í svikapóstunum er viðtakanda tilkynnt að gerðar hafi verið breytingar á skattframtali og fólki boðið að smella á hlekk til að opna þjónustuvef eða skanna Qr kóða. Slíkar sendingar séu ekki á vegum skattsins heldur séu þær netsvik.

„Pósturinn er ekki frá Skattinum, linkurinn leiðir ekki á þjónustuvef Skattsins og rétt er að benda fólki á að smella ekki á hlekkinn og gefa ekki upp neinar persónu- eða fjárhagsupplýsingar,“ segir í tilkynningunni.

Þá hvetur Skatturinn fólk til að tilkynna hlutaðeigandi fyrirtæki/stofnun og lögreglu ef það grunar að sending sem því hafi borist sé sviksamleg. Einkenni netsvika séu gjarnan óvenjuleg vefslóð, einkennilegt málfar og málvillur, beiðni um kortanúmer eða innskráningu með skilríkjum og tilkynning um inneign eða skuld sem fólk á ekki von á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×