Lögregla hafði upp á manninum sem reyndist hafa meðferðis tvo billjardkjuða en vegna ástands mannsins ákvað lögregla að leggja hald á kjuðana. Var manninum svo kynnt að hann gæti nálgast þá þegar ástand hans yrði skárra.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar.
Þar segir einnig frá því að tilkynnt hafi verið um þjófnað á vegabréfum og greiðslukortum. Segir að við rannsókn málsins hafi verðmætin fundist og einn verið kærður, grunaður um þjófnað og húsbrot.
Þá hafði lögreglu af nokkrum ökumönnum, meðal annars vegna aksturs undir áhrifum ávana og fíkniefna. Einn var stöðvaður eftir að hafa verið mældur á 128 kílómetra hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 80 kílómetrar á klukkustund.
Á svæði lögreglustöðvar 3, sem nær yfir Breiðholt og Kópavog, var tilkynnt um hóp ungmenna sem hafði sprengt flugeld inni á sameign og það valdið minniháttar tjóni.
Loks segir að tilkynnt hafi verið um líkamsárás. Þar var einn handtekinn á vettvangi og er málið í rannsókn.