„Þetta kemur til vegna þess að við erum að missa lóðina á Dalvegi,“ segir Gunnar Dofri og að Sorpa sjái þannig fram á að það þurfi að koma mörgum viðskiptavinum sínum fyrir á öðrum stöðum. Hann telur að um 1/6 eða 1/7 viðskiptavina noti stöðina á Dalvegi og um 85 prósent Kópavogsbúa.
Í stað stöðvarinnar á Dalvegi, sem lokar 1. september, verður opnuð ný stöð við Glaðheimasvæðið í Kópavogi. Í tilkynningu frá bænum í desember á síðasta ári kom fram að stöðin yrði byggð upp á næstu tveimur til fjórum árum. Gunnar Dofri segir því ljóst að það verði þjónustufall í Kópavogi á meðan.

„Í millitíðinni þurfum við því að grípa til aðgerða sem létta á öðrum endurvinnslustöðvum. Sævarhöfðinn er umfangsmesta stöðin okkar í dag og við sjáum fram á að fólk muni nýta hana. Við hvetjum fólk þó til að nota líka stöðina á Breiðhellu því hún er langöflugust.“
Öflugri efnismiðlun á Breiðhellu
Endurvinnslustöðin að Breiðhellu og Sævarhöfða eru þær tvær stöðvar sem til dæmis opna klukkan 8 á morgnana og eru opnar til 18.30. Þar er því lengsta opnunin.
Sorpa er þó alls ekki hætt með efnismiðlun því að sögn Gunnars Dofra verður efnismiðlun Sorpu í Breiðhellu efld auk þess sem hluti varanna sem voru seldar í efnismiðlun á Sævarhöfða verða í boði í Góða hirðinum á Köllunarklettsvegi.

„Við erum að bræða betur saman Efnismiðlunina og Góða hirðinn þannig hluti vöruúrvalsins verður í Góða hirðinum. Þar verður meira úrval af til dæmis rafmagnsverkfærum. Á sama tíma verður blásið til sóknar í Breiðhellu. Stöðin er stærri og aðgengilegri,“ segir Gunnar Dofri og að það séu fleiri möguleikar þar til að nýta starfsemi Efnismiðlunarinnar.
Í Efnismiðluninni hefur verið hægt að fá til dæmis hurðar, vaska, dúka og alls konar verkfæri. Þá eru reglulega haldin netuppboð á til dæmis ferðaboxum, bílakerrum og stórum verkfærum. Gunnar Dofri segir það enn í skoðun hvernig skiptingin á vöruúrvalinu verður á milli Góða hirðisins og á endurvinnslustöðinni í Breiðhellu.

Þegar tilkynnt var um lokunina á Facebook lýstu margir yfir óánægju með ákvörðunina.
„Það er mjög skiljanlegt. Þetta er ekki ákvörðun sem við tökum létt. Sævarhöfðinn á mjög öflugan kúnnahóp. En þegar þú ert settur í þá stöðu að þurfa að forgangsraða grunnþjónustunni, sem er móttaka á rusli, umfram þetta, þá þarftu að fara í breytingar.“
Engin endurvinnslustöð í Kópavogi eða Garðabæ
Þegar stöðinni verður lokað á Dalvegi verða aðeins endurvinnslustöðvar í Mosfellsbæ, Reykjavík og í Hafnarfirði. Fyrir suma verður því langt að keyra.
„Þetta er staðan sem mun koma upp 1. september.“
Hann segir ekki liggja fyrir hvað eigi að koma í staðinn. Í tilkynningu bæjarins í desember kom ekki fram hvað ætti að byggja á Dalvegi en í kringum svæðið er að finna fjölda verslana og þjónustu.

Fjallað var um flutninginn fyrst fyrir um tveimur árum. Þá kom fram í fréttum að lóðinni hefði verið úthlutað til bráðabirgða árið 1991. Ekki hefði verið gert ráð fyrir henni í aðalskipulagi á þessari staðsetningu. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri sagði þá íbúa ekki þurfa að óttast að geta losað sorp eftir lokun stöðvarinnar. Það ætti að fjölga grenndarstöðvum á móti.
Sjá einnig: Loka Sorpustöðinni við Dalveg í Kópavogi eftir tæp tvö ár
Þá sagði hún móttökustöðina við Dalveg um áraraðir hafa skapað bæði umferðaröngþveiti og slysahættu.
„Við í Kópavogi fögnum þessari niðurstöðu. Lykilatriði hjá okkur var að ný stöð yrði vel staðsett með góða tengingu við meginstofnvegi. Stöðin verður ívið stærri en sú á Dalveginum og yfirbyggð þannig að hún falli sem best inn í umhverfið. Við teljum að hér sé um að ræða góða lausn sem mun þjóna vel íbúum okkar og nærliggjandi sveitarfélögum,“ sagði Ásdís í desember síðastliðnum þegar tilkynnt var um staðsetningu nýrrar endurvinnslustöðvar á Glaðheimasvæðinu.
Þar kom einnig fram að lóð stöðvarinnar afmarkist af Arnarnesvegi og Reykjanesbraut. Staðsetningin hafi verið valin vegna „stærðar lóðarinnar, legu í landi, fjarlægðar frá öðrum endurvinnslustöðvum, skipulags nærliggjandi byggðar, og því að aðkoma að henni verður greið fyrir íbúa Kópavogs og Garðabæjar“.
Betrumbæta núverandi grenndarstöðvar
Á vef bæjarins kemur fram að grenndarstöðvar séu víðs vegar um bæinn. Stærri grenndarstöðvar er að finna á fimm stöðum. Þar er hægt að losa sig við pappír, plast, pappa, gler, málma, textíl og flöskur. Smærri grenndarstöðvar er að finna á sex stöðum. Á þeim smærri er hægt að losa gler, málma, textíl og flöskur.
Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ stendur ekki til að fjölga grenndarstöðvunum frekar í ár, heldur að halda áfram að betrumbæta þær sem eru nú þegar til staðar. Einni stöð var bætt við í fyrra og fimm teknar í gegn.
„Grenndarstöðvar sinna ákveðinni þjónustu við íbúa sem takmarkast við þá úrgangsflokka sem tekið er við og fjölgun þeirra getur ekki komið í staðin fyrir endurvinnslustöð. Íbúum verður bent á að notast við aðrar endurvinnslustöðvar Sorpu eftir að Dalvegi verður lokað og þangað til ný stöð opnar, sem er núna áætlað að verði á Glaðheimasvæðinu sem starfshópur valdi sem ákjósanlegasta staðin fyrir starfsemina,“ segir Sigríður Björg Tómasdóttir almannatengill bæjarins í svari til fréttastofu um málið.