Þjóðverjar hefja keppni á HM með leik við Pólverja í Herning í Danmörku eftir tíu daga. Þeir mæta svo Sviss og loks Tékklandi. Þrjú efstu liðin í riðlinum komast svo áfram í milliriðil, með þremur liðum úr B-riðli (Danmörk, Ítalía, Alsír, Túnis), og tvö efstu liðin úr milliriðlinum komast í 8-liða úrslit.
„Ég tel okkur vera með sterkasta liðið í riðlinum, án nokkurs vafa. Það hljómar kannski hrokafullt en svona er þetta í mínum huga,“ sagði Alfreð hreinskilinn á blaðamannafundi í Hamburg í dag.
„Fyrsti leikurinn við Pólland verður eins og úrslitaleikur fyrir okkur,“ bætti Alfreð við.
Var í siglingu og svaraði ekki Alfreð
Alfreð stýrði Þýskalandi til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í ágúst og getur að mestu treyst á hópinn sem hann var með þar. Tveir hafa þó helst úr lestinni, þeir Sebastian Heymann og Jannik Kohlbacher.
Alfreð kallaði því í þá Tim Zechel og Lukas Stutzke, en það tók sinn tíma að ná í Zechel sem var í siglingu þegar Alfreð reyndi að ná í hann.
„Ég var með þrjú símanúmer hjá honum og reyndi ítrekað en hann svaraði aldrei. Ég talaði síðan við Bennet Wiegert [hjá Magdeburg] sem náði loksins í hann þegar hann kom til hafnar,“ sagði Alfreð.
„Sem betur fer var hann bara í Skandinavíu og ekki langt í burtu,“ sagði Alfreð en Zechel fór beint úr skipinu og til móts við þýska liðið í Hamburg.
Fjórir veikir en ekkert alvarlegt
Fjórir leikmenn hafa hins vegar glímt við veikindi og ekki komið strax til æfinga en Alfreð segir ekkert alvarlegt í því. Um er að ræða Franz Semper, Julian Köster, Renars Uscins og Nils Lichtlein en allir ættu að vera mættir og tilbúnir að æfa á morgun.
„Ég taldi betra að menn héldu sig í burtu þar til að þeir væru alveg heilir heilsu,“ sagði Alfreð.