Sport

Halla for­seti bauð þeim báðum á Bessa­staði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Konurnar þrjár á topp þrjú í kjörinu á Íþróttamanni ársins 2024. Eygló Fanndal Sturludóttir, Glódís Perla Viggósdóttir með bikarinn og Sóley Margrét Jónsdóttir.
Konurnar þrjár á topp þrjú í kjörinu á Íþróttamanni ársins 2024. Eygló Fanndal Sturludóttir, Glódís Perla Viggósdóttir með bikarinn og Sóley Margrét Jónsdóttir. @eyglo_fanndal

Þetta var mjög góð helgi fyrir íslensku íþróttakonurnar Sóleyju Margréti Jónsdóttur og Eyglóu Fanndal Sturludóttur og helgin þeirra byrjaði líka vel.

Báðar urðu þær meðal þriggja efstu í kjöri Íþróttamanni ársins á laugardaginn en daginn áður voru þær líka báðar sérstakir gestir forseta Íslands.

Á föstudaginn tók forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, á móti Sóleyju Margréti Jónsdóttur kraftlyftingakonu og Eygló Fanndal lyftingakonu.

Bauð forseti þeim til móttöku á Bessastöðum, ásamt þjálfurum sínum og forsvarsmönnum Lyftinga- og Kraftlyftingasambands Íslands.

Halla, sem er verndari Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands óskaði þeim til hamingju með glæsilegan árangur og ræddi við þær um íþróttaferilinn, framtíðarsýn þeirra og eins um tækifæri og áskoranir í íþróttum, ekki síst fyrir konur í styrktarþjálfun og kraftaíþróttum.

Þær Sóley og Eygló enduðu á eftir Glódísi Perlu Viggósdóttur í kosningunni á Íþróttamanni ársins. Þetta er í fyrsta sinn sem konur eru í þremur efstu sætum kjörsins. Þetta er einnig besti árangur hjá kraftlyftingakonu (Sóley í öðru sæti) og konu í ólympískum lyftingum (Eygló í þriðja sæti).

Kraftlyftingasambandið sagði frá heimsókninni eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×