Erlent

Trump yngri á leið til Græn­lands

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Donald Trump Jr. er elsta barn og nafni Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna.
Donald Trump Jr. er elsta barn og nafni Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna. EPA/cj gunther

Sonur verðandi forseta Bandaríkjanna er á leið til Grænlands. Trump hefur nýlega viðrað aftur hugmyndir sínar um að kaupa Grænland.

Donald Trump yngri, sonur Donald Trump verðandi forseta Bandaríkjanna, er á leiðinni til Grænlands. Samkvæmt danska ríkisútvarpinu er ekki um að ræða opinbera heimsókn. 

Donald Trump hefur sýnt Grænlandi áhuga frá árinu 2019 þegar hann viðraði fyrst hugmyndir sínar um að kaupa landið af Dönum. Þá virðist hann enn girnast Grænland og sagði nýlega að eignarhald og yfirráð Bandaríkjanna á Grænlandi sé algjör nauðsyn.

Dönskum og grænlenskum ráðamönnum leist ekkert á hugmyndina og árið 2019 sagði Mette Frederiksen hugmyndina „fráleita.“ Trump sagði orð forsætisráðherrans „óviðeigandi“ og „viðbjóðsleg.“

Núna í nýársávarpi sínu sagði Múte B. Egede, formaður landstjórnar Grænlands að kominn væri tími til að Grænlendingar tækju sjálf skref og mótuðu sína eigin framtíð. 

Elon Musk, auðugasti maður heims og mikill stuðningsmaður Trump, hefur einnig tjáð sig um málið á samfélagsmiðlinum sínum X. Þar segir hann að grænlenska þjóðin ætti að ráða sinni eigin framtíð og hann heldur að þau vilji vera hluti af Bandaríkjunum.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×