Innlent

Grunuð um að setja milljónir af opin­beru fé inn á veðmálasíður

Jón Þór Stefánsson skrifar
Í Langanesbyggð búa alls um 550 manns og eru um 60 nemendur í grunnskólanum sem er sá eini í sveitarfélaginu.
Í Langanesbyggð búa alls um 550 manns og eru um 60 nemendur í grunnskólanum sem er sá eini í sveitarfélaginu.

Kona sem var á síðasta ári ákærð fyrir fjárdrátt í opinberu starfi þegar hún var skólastjóri Grunnskólans á Þórshöfn er grunuð um að hafa notað peninginn til einkanota, aðallega í greiðslur sem fóru inn á veðmálasíður.

Þetta kemur fram í viðbótarskjali við ákæru málsins sem fréttastofa hefur undir höndum. Þar segir að rannsókn málsins hafi leitt í ljós að greiðslurnar hafi aðallega farið til Betsson og Digimedia.

Betsson er fræg veðmálasíða og Digimedia rekur margar leikja- og veðmálasíður á netinu. Bæði Betsson og Digimedia eru starfrækt frá Möltu.

Greint var frá máli konunnar í maí á síðasta ári. Þá kom fram að hún væri ákærð fyrir að draga að sér rúmlega 8,6 milljónir króna þegar hún starfaði sem skólastjóri Grunnskólans á Þórshöfn í 74 færslum frá árinu 2016 til 2020. 

Upphæðirnar komu að mestu leiti frá reikningum skólans, en nokkrar komu af reikningi félagsmiðstöðvar skólans.

Í viðbótarskjalinu sem fréttastofa hefur undir höndum kemur fram að í sex tilfellum hafi millifærslur konunnar verið vegna kostnaðar sem hún greiddi af reikningi sínum. Vegna þess hefur ákæruvaldið dregið tæplega 2,5 milljónir af upprunalegu ákærufjárhæðinni.

Þegar málið kom upp sagði Björn S. Lárusson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, að málið hefði verið starfsmönnum skólans þungbært. Jafnframt sagði Björn að búið væri að breyta verklagi þannig þetta kæmi ekki fyrir aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×