Innlent

Framsóknar­menn í Reykja­vík vilja flýta flokks­þingi

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson hefur gegnt formennsku í Framsóknarflokknum frá árinu 2016.
Sigurður Ingi Jóhannsson hefur gegnt formennsku í Framsóknarflokknum frá árinu 2016. Vísir/Vilhelm

Kjör­dæm­is­samband Fram­sókn­ar­manna í Reykja­vík­ur­kjör­dæmun­um hefur samþykkt að óska eftir miðstjórnarfundi hjá flokknum í þeim tilgangi að flýta megi flokksþingi.

Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í morgun en kjördæmisráðið kom saman til fundar í gærkvöldi. Ráðið telur nauðsynlegt að boða til flokksþings til að bregðast við lökum árangri flokksins í alþingiskosningunum sem fram fóru í lok nóvember.

Framsóknarflokkurinn tryggði sér þar atkvæði 7,8 prósent kjósenda og náði fimm mönnum inn á þing. Missti flokkurinn þar með átta þingmenn, en eftir kosningar 2021 var flokkurinn með þrettán þingmenn eftir að hafa fengið rúmlega 17 prósent atkvæða.

Minnstu mátti muna að formaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson dytti af þingi í síðustu kosningunum, en varaformaðurinn Lilja Dögg Alfreðsdóttir var í hópi þeirra sem missti þingsæti. Flokkurinn náði ekki inn neinum manni á þing á höfuðborgarsvæðinu.

Lilja sagði fyrr í vikunni að kurr væri í flokknum eftir kosningarnar og að margir flokksmenn væru á því að rétt væri að flýta flokksþingi, en hlutverk þess er meðal annars að velja forystu flokksins.

Á fundi kjördæmissambandsins í gær var samþykkt tillaga um að beina þeim tilmælum til framkvæmdastjórnar að landsstjórn yrði kölluð saman til að hægt yrði að boða til miðstjórnarfundar sem gæti svo boðað til flokksþings.

Í bréfi til framkvæmdastjórnar flokksins segir að úrslit kosninganna krefjist greiningar og aðgerða. Nauðsynlegt sé að ræða á heildstæðan hátt hvað leiddi til niðurstöðu kosninganna hvað Framsóknarflokkinn varðar og hvernig hægt sé að bregðast við af krafti. Uppbyggingarstarf flokksins verði að byggjast á sameiginlegri sýn, virkri þátttöku og skýrum markmiðum.

Sigurður Ingi Jóhannsson hefur setið á þingi frá árinu 2009 og gegnt formennsku í Framsóknarflokknum frá árinu 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×