Erlent

Bloomberg segir við­ræður hafa átt sér stað um sölu TikTok til Musk

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Talsmenn TikTok segja ekkert til í frétt Bloomberg.
Talsmenn TikTok segja ekkert til í frétt Bloomberg. Getty

Bloomberg News segir embættismenn í Kína hafa átt viðræður um mögulega sölu TikTok til Elon Musk, ef til þess kemur að samskiptamiðillinn verður bannaður í Bandaríkjunum.

Talsmenn Tik Tok segja ekkert til í fregnunum og hafa neitað að tjá sig um „pjúra skáldskap“.

Samkvæmt frétt Bloomberg vilja stjórnvöld í Kína helst að TikTok verði áfram í eigu móðurfélagsins ByteDance en óvíst er að hversu miklu leyti fyrirtækið hefur verið upplýst um viðræðurnar.

Möguleg sala til Musk er sögð ein af mögulegum sviðsmyndum ef til þess kemur að Hæstiréttur Bandaríkjanna staðfesti lög sem banna TikTok í Bandaríkjunum á meðan samfélagsmiðillinn er enn í eigu Kínverja.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum segja eignarhald ByteDance á TikTok ógna þjóðaröryggi Bandaríkjanna en lögmenn TikTok segja umrædd lög hins vegar brjóta gegn tjáningarfrelsi milljóna notenda vestanhafs.

Að því er Bloomberg greinir frá eru hugmyndir uppi um að Musk myndi kaupa TikTok og reka samhliða X, áður Twitter. Musk er ötull stuðningsmaður Donald Trump, fyrrverandi og verðandi Bandaríkjaforseta, og hefur talað mjög fyrir minni ritskoðun á netinu.

Trump var áður fylgjandi banni á TikTok en virðist eitthvað hafa skipt um skoðun eftir að hann var aftur kjörinn forseti og fundaði með milljarðamæringnum Jeff Yass. Yass hefur gefið milljónir til Repúblikanaflokksins og á hlut í ByteDance og Truth Social, samfélagsmiðli Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×