Í tilkynningu frá embættinu segir að áætlunin sé virkjuð á óvissustigi. Viðbragðsaðilar hafi fengið boðun í gegnum neyðarlínuna í samræmi við viðbragðsáætlunina þar sem segir: Óvissustig – líkur á eldgosi undir Vatnajökli.
Þá segir að virkjunin sé fyrst og fremst gerð í þeim tilgangi að viðbragðsaðilar og þeir sem hafi hlutverkum að gegna samkvæmt áætluninni hafi tækifæri til að undirbúa sig og rifja upp áætlunina. Aðgerðastjórn verði opin á Húsavík milli klukkan átta og tólf næstu daga.
Öflug skjálftahrina hófst á sjöunda tímanum í morgun en eftir klukkan níu dróst verulega úr ákafa hennar, að því er kemur fram í frétt á vef Veðurstofunnar. Síðan þá hafa fáir jarðskjálftar mælst og sérfræðingar Veðurstofunnar munu fylgjast með áframhaldandi þróun.
Óljóst með framhaldið
Þá segir að fluglitakóði sé áfram gulur á svæðinu, sem gefi til kynna aukna virkni miðað við venjulegt ástand og óvissu um þróunina.
Loks kemur fram að þrátt fyrir að jarðskjálftavirkni mælist minni sé ekki hægt að segja til um hvort hrinan sé að fjara út. Margar sviðsmyndir komi til greina um þróun jarðhræringa á svæðinu. Náið verði fylgst með þróun skjálftavirkninnar í Bárðarbungu og mögulegum eldsumbrotum.