Innlent

Ekkert ferða­veður á morgun og Freyja komin í Seyðis­fjörð

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Freyja, varðskip Landhelgisgæslunnar.
Freyja, varðskip Landhelgisgæslunnar. Vísir/Vilhelm

Freyja, varðskip Landhelgisgæslunnar, verður í Seyðisfirði í nótt. Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi og útlit er fyrir áframhaldandi snjókomu og erfið veðurskilyrði á morgun.

Á annað hundrað íbúar á Seyðisfirði og Neskaupsstað þurftu að yfirgefa heimili sín í dag vegna aukinnar snjóflóðahættu. Allir eru komnir í húsaskjól.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, segir að á fundi almannavarna í kvöld hafi meðal annars verið farið yfir veðurhorfur.

Útlit sé fyrir að á morgun verði ekkert ferðaveður á svæðinu, og vegir verði meira og minna ófærir.

„Þannig við hvetjum fólk til þess að fara varlega og halda sig heima á morgun. Það má búast við því að í fyrramálið verði illfært um vegi hvort heldur innanbæjar eða utan,“ segir hann.

Varðskip Landhelgisgæslunnar verði í Seyðisfirði, meðal annars vegna þess að Fjarðarheiðin er lokuð.

Vegir eru meira og minna ófærir á Austfjörðum frá Höfn alla leið að Seyðisfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×