Donald Trump telur mikilvægi að afnema þessi réttindi en dómarinn, John Coughenour, segir það bersýnilega stríða gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna. Fjórtándi viðauki stjórnarskrárinnar kveði skýrt á um að hver sá sem fæðist í Bandaríkjunum sé bandarískur ríkisborgari.
Lögbannið lagði hann fram að áeggjan þingmanna fjögurra ríkja Bandaríkjanna, Arizona, Illinois, Oregon og Washington.
Tilskipunin hefur þegar orðið tilefni fimm málsókna á hendur alríkinu og yfirlýsinga ríkislögmanna tuttugu og tveggja ríkja. Allir eru sammála um að tilskipun forsetans gangi bersýnilega í berhögg við stjórnarskrána.
Lane Polozola, ríkislögmaður Washingtonríkis, segir stöðuna sem upp er komin grafalvarlega. Hún ræddi við blaðamenn í Seattle í kjölfar þess að lögbannið var sett á.
„Þetta er bara fyrsta skrefið en að heyra dómarann segja að á hans fjörutíu ára starfsferli sem dómari hafi hann aldrei séð neitt sem gangi svo bersýnilega gegn stjórnarskránni, sýnir hve alvarlegt þetta er,“ segir Polozoa.
Tilskipun Trump kveður á um að barn öðlist ekki sjálfkrafa bandarískan ríkisborgararétt fyrir það eitt að fæðast í Bandaríkjunum ef hvorugt foreldri er bandarískur ríkisborgari eða handhafi löglegs landsvistarleyfis. Gangi áætlanir Trump eftir yrðu öll börn sem fædd eru eftir 19. febrúar og uppfylla ekki fyrrnefnd skilyrði vísað á brott frá Bandaríkjunum. Allt að 150 þúsund börn yrðu af bandarískum ríkisborgararétti árlega.
„Ég á í erfiðleikum með að skilja hvernig lögmaður gæti sagt skilyrðislaust að þessi tilskipun standist ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég botna ekkert í því,“ hefur Reuters eftir Coughenour dómara.