Rafmagnsbílar voru hlutfallslega flestir þeirra 596 fólksbíla sem voru nýskráðir í janúar samkvæmt tölum Bílgreinasambands Íslands, 37,9 prósent. Á eftir þeim komu tengiltvinnbílar sem voru um 31,5 prósent. Tengiltvinnbílar ganga bæði fyrir rafmagni og jarðefnaeldsneyti og hægt er að hlaða þá.
Dísilbílar voru í þriðja sæti, 11,4 prósent nýskráðu bílanna. Hybrid-bílar höfðu 10,2 prósent hlutdeild. Þeir eru bæði raf- og eldsneytisknúnir en ekki er hægt að hlaða þá. Bensínbílar ráku lestina með 8,9 prósent markaðshlutdeild.
Meirihluti bílanna var skráður á einstaklinga, 325 eða rúm 54 prósent.

Mest skráða bílategundin var KIA. Tæpur fimmtungur nýskráðra bíla í janúar voru þeirrar tegundar sem hefur notið mikilla vinsælda hjá bílaleigum. Toyota var með næstflestar nýskráningar, 11,4 prósent hlutdeild. Hyundai var í þriðja sæti með 11,2 prósent hlutdeild.