Um­fjöllun: Slóvakía - Ís­land 78-55 | Ekki góður endir á undankeppninni

Kári Mímisson skrifar
Sara Rún var stigahæst í íslenska liðinu með 20 stig. 
Sara Rún var stigahæst í íslenska liðinu með 20 stig. 

Ísland tapaði 78-55 gegn Slóvakíu ytra í síðasta leiknum í undankeppni EM. Stelpurnar okkar byrjuðu leikinn ljómandi vel og voru þrettán stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, en létu síðan verulega undan og stórt tap varð niðurstaðan.

Flottur fyrsti leikhluti

Slóvakar skoruðu fyrstu tvær körfur leiksins en eftir það tók við algjörlega stórkostlegur kafli íslenska liðsins sem gjörsamlega tók yfir leikinn.

Liðið náði 21-4 kafla og leiddi með 13 stigum eftir fyrsta leikhluta, staðan 10-23.

Gekk lítið sem ekkert eftir það

Lið Slóvakíu bætti leik sinn til mikilla muna í öðrum leikhluta og tókst að komast yfir 30-28. Á þessum tímapunkti gekk lítið sem ekkert hjá íslenska liðinu sem tapaði hverjum boltanum á fætur öðrum í sókninni og kom sér í villu vandræði snemma í leikhlutanum.

Heimakonur gengu á lagið og það skipti litlu þó svo að vítanýting þeirra hafi ekki verið góð því okkar konur áttu fá svör við pressuvörn Slóvaka. Staðan í hálfleik 35-32 fyrir Slóvakíu.

Náðu sér ekki á strik í seinni hálfleik

Íslenska liðið náði sér aldrei á strik í seinni hálfleik og Slóvakar gengu á lagið. Hægt og rólega jókst forysta heimakvenna og það var sama hvað íslenska liðið gerði þá tókst þeim ekki að snúa gang leiksins til sín.

Helsti munurinn á liðunum var í raun á vítalínunni en á meðan íslenska liðið fékk 10 vítaskot í leiknum þá voru þær slóvakísku með 27.

Munurinn var níu stig þegar rúmlega fimm mínútur voru eftir en þá kom mjög góður lokakafli hjá Slóvakíu sem tryggði sér 23 stiga sigur eins og áður segir.

Sara stigahæst

Sara Rún Hinriksdóttir var atkvæðamest í íslenska liðinu en hún skoraði 20 stig. Næst á eftir henni var Danielle Rodriguez sem gerði 14 stig, tók 9 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

Lokaleikur undankeppninnar

Þetta var lokaleikur liðsins í undankeppni EuroBasket 2025 en liðið endaði í þriðja sæti í riðlunum. Fín undankeppni í flesta staði en ég hugsa nú að stelpurnar hefðu viljað enda þetta betur. Það verður samt að segjast að íslenska liðið virðist vera mjög spennandi á næstu árum og spennandi að sjá hvað gerist í framtíðinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira