Hægrisinnaður ísraelskur áhrifavaldur, sem hefur meðal annars vakið athygli fyrir að reyna að fá fólk til að hallmæla Ísrael fyrir framan myndavélar, birti samtal við tvo hjúkrunarfræðinga, karl og konu, á Bankstown-sjúkrahúsinu í Sydney á netinu í gær.
Konan sagðist ekki myndu aðstoða ísraelska sjúklinga heldur drepa þá en karlinn bölvaði þeim og renndi fingri yfir hálsinn á sér líkt og hann væri að skera manneskju á háls, að sögn AP-fréttastofunnar.
Báðum hjúkrunarfræðingum var vikið úr starfi í dag. Ryan Park, heilbrigðisráðherra Nýju Suður-Wales, sagði þá ekki eiga afturkvæmt til starfa fyrir heilbrigðisyfirvöld þar.
„Þau eru ógeðslegir, viðbjóðslegir og vanstilltir einstaklingar,“ sagði Park.
Sérstök deild lögreglunnar sem var sett á fót til þess að bregðast við aukinni gyðingaandúð eftir að stríð Ísraels og Hamas-samtakanna hófst árið 2023 rannsakar einnig hvort að hjúkrunarfræðingarnir hafi gerst sekir um hatursglæp.
Hrina skemmdarverka á heimilum, vinnustöðum, skólum og bænahúsum gyðinga hefur staðið yfir í Ástralíu undanfarin misseri. Lögreglan í Sydney og Melbourne rannsaka nú kerru fulla af sprengiefni sem fannst ásamt lista yfir gyðinga sem gætu verið möguleg skotmörk árása og íkveikjur í tveimur bænahúsum gyðinga. Um 85 prósent ástralskra gyðinga búa í stórborgunum tveimur.