Fótbolti

Glódís Perla með mikil­vægt mark í bikarnum en hinar úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir skoraði afar mikilvægt mark í kvöd.
Glódís Perla Viggósdóttir skoraði afar mikilvægt mark í kvöd. Getty/Charlotte Wilson/

Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir eru úr leik í þýska bikarnum eftir tap með liðum sínum í átta liða úrslitum. Glódís Perla Viggósdóttir sá aftur á móti til þess að Bayern München komst áfram í undanúrslitin.

Glódís Perla Viggósdóttir og félagar í Bayern München unnu 4-1 endurkomusigur á heimavelli á móti Eintracht Frankfurt. Frankfurt kom yfir á sjálfsmarki Carolin Simon á 79. mínútu leiksins. Þannig var staðan þar til í lokin þegar Jovana Damnjanovic jafnaði metin á lokamínútunni.

Bayern náði því að tryggja sér framlengingu þar sem Glódís Perla skoraði og kom þeim í 2-1 í byrjun hennar. Momoko Tanikawa bætti síðan við þriðja markinu. Bæjarar voru á miklu flugi eftir mark Glódísar og Jovana Damnjanovic skoraði fjórða markið með sínu öðru marki í leiknum.

Glódís Perla lék allan leikinn í miðri vörninni. Markið hennar er öruggulega eitt það mikilvægasta sem leikmaður Bayern hefur skorað á tímabilinu.

Sveindís Jane Jónsdóttir og félegar í Wolfsburg eru ríkjandi bikarmeistarar en þær duttu út á móti TSG 1899 Hoffenheim í kvöld. Hoffenheim vann 1-0 sigur þar sem sigurmarkið kom á 52. mínútu.

Sveindís Jane var í byrjunarliðinu en var tekin af velli á 66. mínútu.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og félagar í Bayer Leverkusen töpuðu 0-1 á heimavelli á móti Werder Bremen. Sigurmarkið kom á lokamínútu fyrri hálfleiks. Karólína Lea kom inn á sem varamaður á 61. mínútu en tókst ekki að jafna metin ekki frekar en félagar hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×