Erlent

Ísraelar fá sprengjur frá Banda­ríkjunum

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, heimsótti Donald Trump, forseta Bandaríkjanna fyrr í mánuðinum.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, heimsótti Donald Trump, forseta Bandaríkjanna fyrr í mánuðinum. EPA/JIM LO SCALZO

Ísraelar hafa tekið á móti stórum sprengjum frá Bandaríkjunum. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, felldi úr gildi ákvörðun Joe Biden, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, um að fresta skyldi ótímabundið sendingum þess konar sprengja. 

Um er að ræða MK-84 sprengjur. Ein sprengja vegur um 907 kílógrömm og getur eyðilagt þykka steypu og málma segir í umfjöllun Reuters. Ísraelar hafa áður fengið mörg vopn frá Bandaríkjunum. 

„Vopnasendingin sem barst til Ísrael í kvöld, sem Trump-stjórnin sendi, er mikilvæg eign fyrir flugherinn og ísraelska herinn og þjónar sem frekari sönnun fyrir sterku bandalagi Ísraels og Bandaríkjanna,“ sagði Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísrael.

Joe Biden, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, frestaði þá ótímabundið sendingu sprengja af þessari stærð í maí 2024 vegna áhrifanna sem þær gæti haft á almenning á Gasa. Á sama tíma stöðvaði hann sendingar á sprengjum sem vega 227 kílógrömm en felldi ákvörðunina úr gildi í júlí sama ár.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, felldi alveg úr gildi ákvörðun forvera síns. Því voru MK-84 sprengjurnar sendar af stað til Ísrael.

„Þeir gerðu samning um vopnin fyrir löngu síðan við Biden stjórnina og svo vildi Biden ekki afhenda vopnin. En ég lít á þetta öðruvísi. Ég segi friður í gegnum styrk,“ sagði Trump.

Nú er í gildi vopnahlé í átökunum á milli Ísrael og Palestínu en er það ekki talið standa styrkum fótum. Báðar hliðar hafa sakað hvor aðra um að brjóta gegn vopnahléinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×