Gylfi gekk í raðir Víkinga í morgun frá Val. Skiptin voru staðfest í hádeginu og mun Gylfi fá leikheimild með Víkingum í vikunni.
Þrátt fyrir að félagsskiptaglugginn sé opinn hér á landi, á milli leiktíða, hafa íslensk félög í Evrópukeppni ekki heimild til að gera breytingar á leikmannahópi sínum í keppninni.
Víkingar fara ótroðnar slóðir en ekkert íslenskt lið hefur áður komist svo langt í Evrópukeppni. Víkingur vann magnaðan 2-1 sigur á Panathinaikos fimmtudaginn í síðustu viku og mætir gríska liðinu öðru sinni á fimmtudagskvöldið í Aþenu í umspili um sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.
Gylfi Þór má ekki leika með Víkingi á fimmtudaginn né heldur neinn annan leik í keppninni komist Víkingar lengra.
Víkingar skráðu leikmannahóp liðsins til leiks í haust, en félög senda þá inn bæði A- og B-lista leikmanna sem mega spila með liðinu í keppninni. Sá hópur sem skráður var til leiks tók þátt í leikjunum í deildarhluta keppninnar.
Víkingum, líkt og öðrum liðum sem fóru áfram í umspil eða 16-liða úrslit, var heimilt að gera í mesta lagi þrjár breytingar á hópnum eftir að félagsskiptaglugginn lokaði víðast hvar í álfunni í lok janúar.
Daníel Hafsteinsson, Róbert Orri Þorkelsson og Stígur Diljan Þórðarson höfðu þá gengið í raðir félagsins og voru þeir gjaldgengir í leikina við Panathinaikos. Daníel byrjaði leikinn í 2-1 sigrinum í Helsinki.
Samkvæmt reglugerð UEFA þarf sá hópur að liggja fyrir í síðasta lagi 6. febrúar og í einhverjum undantekningartilfellum má bæta fleirum við. Engar breytingar má hins vegar gera á hópnum eftir 6. febrúar.
Gylfi Þór og hver annar leikmaður sem Víkingur kaupir hér eftir fram að úrslitaleik keppninnar má því ekki spila með liðinu í Sambandsdeildinni.
Það er, þar til Víkingur hefur leik í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í sumar. Þá hefst ný leiktíð í keppninni og hægt að skrá Gylfa Þór til leiks.