Viðskipti innlent

Harma ó­ná­kvæma til­kynningu Kauphallar

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Gengi flugfélagsins Play fór í sögulega lægð í dag.
Gengi flugfélagsins Play fór í sögulega lægð í dag. Vísir/Vilhelm

Stjórn flugfélagsins PLAY sendi frá sér tilkynningu þar sem hún harmar óskýrar tilkynningar og fréttaflutning um rekstrarhæfi félagsins. Tilkynningar af þessu tagi valdi félaginu tjóni.

„Í gær birtist frétt á mbl.is með fyrirsögninni: Kauphöll vísar til vafa um rekstrarhæfi Play. Þar var vitnað í athugunarmerkingu Play í Kauphöll og látið í það skína að endurskoðandi hafi gert athugasemd um rekstrarhæfi félagsins í ársreikningi. Það er ekki rétt,“ stendur í tilkynningu frá Play.

Endurskoðandi hafi yfirfarið ársreikninga Play og ekki gert neinar athugasemdir en komið ábendingu á framfæri. Hann hafi bent á að ef markaðsaðstæður skyldu breytast eða áætlanir gangi ekki eftir gæti félagið þurft að sækja aukið fé til að styrkja reksturinn.

„Vegna þessarar ábendingar endurskoðandans ákvað Kauphöllin að athugunarmerkja Play, en fram hefur komið hjá Kauphöllinni að slíkt sé alvanalegt hjá fyrirtækjum skráð á markað.“

Rekstrarhorfur flugfélagsins séu mun betri en áður.

„Óskýrar tilkynningar af þessu tagi og fréttaflutning af þeim valda alvarlegum misskilningi sem veldur félaginu tjóni,“ stendur í tilkynningu. Gengi hlutabréfa í flugfélaginu Play lækkaði um tæp sautján prósent í dag eftir tilkynninguna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×