Sport

Sú yngsta í sögunni til að vinna: „Var rosa­lega stresuð“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mirra Andreeva með bikarinn sem hún fékk fyrir sigurinn í Dúbaí.
Mirra Andreeva með bikarinn sem hún fékk fyrir sigurinn í Dúbaí. Getty/Robert Prange

Hin sautján ára gamla Mirra Andreeva er nú sú yngsta í sögunni til að vinna WTA 1000 tennismót á alþjóðlegu atvinnumannamótaröðinni.

Andreeva tryggði sér sigur á móti í Dúbaí með því að vinna hina dönsku Clara Tauson í úrslitaleiknum, 7–6 og 6–1.

Andreeva hafði áður vakið mikla athygli á mótinu fyrir að slá út þrjá risamótssigurvegara á leið sinni í úrslitaleikinn. Ein af þeim var Iga Swiatek sem er í öðru sæti heimslistans. Hinar voru Marketa Vondrousova og Elena Rybakina.

Andreeva kemst líka með þessum sigri í hóp tíu bestu tenniskvenna heims á heimslistanum.

„Ég setti mér það markmið að vera meðal tíu efstu í heimi fyrir lok ársins. Núna er febrúar að enda og ég er þegar búin að ná því. Það er alveg ótrúlegt,“ sagði Andreeva.

„Ég er bara svo ótrúlega ánægð með hvernig ég var að spila í dag. Ég var rosalega stressuð og það sást alveg í leiknum. Ég er samt svo ánægð að ná að ráða við pressuna. Það er stórkostlega tilfinning að vinna. Ég var búin að deyma um þetta og nú var draumurinn að ræast. Ég er eiginlega orðlaus,“ sagði Andreeva.

Eini táningurinn sem hafði unnið mótið í Dubaí var Spánverjinn Rafa Nadal árið 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×