Fótbolti

Frá­bærir Bæjarar á­fram í topp­málum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Fagnaðarlæti Bæjara í dag voru í hófsamari kantinum.
Fagnaðarlæti Bæjara í dag voru í hófsamari kantinum. Vísir/Getty

Bayern Munchen er með átta stiga forskot á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar eftir öruggan sigur á Frankfurt á heimavelli í dag.

Leverkusen minnkaði mun Bayern á toppnum niður í fimm stig með sigri á Holstein Kiel í dag en þessi tvo topplið Þýskaland drógust einmitt saman í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á dögunum.

Bayern tók á móti Frankfurt í dag á heimavelli og þar var aldrei spurning hvort liðið væri sterkara. Það tók reyndar Bæjara nær allan fyrri hálfleikinn að ná forystunni en á þriðju mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Michael Olise og sá til þess að Bayern var 1-0 yfir í hálfleik.

Í síðari hálfleik keyrðu svo Bæjarar yfir gestina. Hiroki Ito bætti öðru markinu við á 62. mínútu og Jamal Musiala því þriðja sjö mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma. Í uppbótartíma skoraði Serge Gnabry síðan fjórða markið og öruggur 4-0 sigur Bayern staðreynd.

Bayern er nú með átta stiga forystu á Leverkusen þegar ellefu umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×