Erlent

170 mæður á Bret­landi drepnar af sonum sínum á fimm­tán árum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í 59 prósent tilvika þar sem karl drap konu beitti árásarmaðurinn mun meira offorsi en þurfti til að ráða henni bana.
Í 59 prósent tilvika þar sem karl drap konu beitti árásarmaðurinn mun meira offorsi en þurfti til að ráða henni bana. Getty

Yfir 170 mæður á Bretlandseyjum voru drepnar af sonum sínum á síðustu fimmtán árum. Um er að ræða eina af hverjum tíu konum sem drepnar voru af körlum.

Í skýrslu um 2.000 dauðsföll kvenna af völdum karla frá árinu 2009 segir að andleg veikindi hafi verið orsakaþáttur í um 58 prósent tilvika þar sem synir urðu valdir að dauða móður sinnar.

Guardian hefur eftir sérfræðingum að andleg veikindi, neysla og aukið sambýli foreldra og fullorðinna barna vegna húsnæðisskorts séu meðal lykilorsaka. Þá er kvenfyrirlitning einnig talin eiga þátt að máli.

Stjórnvöld virðast þannig geta haft veruleg áhrif á tölfræðina, með aukinni aðstoð til handa bæði unga fólkinu og foreldrunum. Foreldrar átti sig hins vegar ekki alltaf á því að ofbeldi barna gegn þeim sé í raun heimilisofbeldi og eiga oft erfitt með að leita aðstoðar.

Þegar horft er á dauðsföllin 2.000 í heild var árásarmaðurinn í 90 prósent tilvika fjölskyldumeðlimur, maki eða einhver sem konan þekkti. 61 prósent kvenna var drepið af núverandi eða fyrrverandi maka og um 80 prósent drápana áttu sér stað inni á heimilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×