Erlent

Fraktskipið flutti gáma fyrir Sam­skip Multimodal

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Björgunarstarf stendur enn yfir og eins skipverjans er enn leitað.
Björgunarstarf stendur enn yfir og eins skipverjans er enn leitað. AP/Denys Mezentsev

Fraktskipið Solong sem skall á efna- og olíuflutningaskipið Stena Immaculate flutti gáma fyrir Samskip Multimodal. Árekstur skipanna varð úti fyrir Hull á Englandi í morgun og olli miklu tjóni.

Samskip Multimodal er systurfélag Samskipa hf. og er með sitt eigið skipakerfi. Skipið er leigt með áhöfn af eiganda þess og segja Samskip í tilkynningu að Samskip Multimodal beri ekki á því ábyrgð þó að það hafi sinnt flutningum fyrir félagið.

„Samskipum eru efst í huga öryggi og velferð áhafna skipanna auk viðbragðsaðila, en björgunaraðgerðir hafa staðið í allan dag og eru Samskip Multimodal í nánu sambandi við yfirvöld og eigendur skipsins,“ segir í tilkynningu Samskipa.

Þar segir einnig að unnið sé að því að meta möguleg áhrif á sendingar og að viðskiptavinir sem málið varðar verði upplýstir um þau. Ekki sé um að ræða sendingar á leið til eða frá Íslandi.

Fraktskipið Solong skall á efna- og olíuflutningaskipinu MV Stena Immaculate sem lá við akkeri út fyrir strönd Englands. Bæði skip urðu fyrir talsverðu tjóni og svartur reykur steig upp úr báðum skipum og sprengingar glumdu þegar eldur barst að tönkum fullum af þotueldsneyti sem lekur nú út í Norðursjó.

Óttast er um að mikið umhverfisslys sé í vændum en fraktskipið solong var með fimmtán gáma af natríumblásýrusalti sem er baneitrað og getur verið banvænt sjávarlífi að sögn sérfræðings sem ræddi við breska ríkisútvarpið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×