Skoðun

Af hverju ég kýs Björn Þor­steins­son sem rektor Há­skóla Ís­lands

Hrannar Baldursson skrifar

Sem fyrrverandi samnemandi Björns Þorsteinssonar í heimspeki við Háskóla Íslands, hafði ég þann heiður að fylgjast náið með honum sem nemanda. Oft sátum við hlið við hlið, og ég var vitni að dugnaði og örlæti Björns. Hann tók reglulega upp fyrirlestra fyrir þá sem gátu ekki sótt þá, tryggði að allir hefðu aðgang að upplýsingunum sem vantaði. Glósur hans, sem hann deildi með mér, voru mjög vel skipulagðar ogskrifaðar, og endurspegluðu yfirburða skilning hans á því efni sem rætt var hverju sinni.

Meðan ég glímdi við spurningar sem spruttu upp í fyrirlestrum, sá Björn stöðugt skýrari og stærri mynd. Í akademísku umhverfi, þar sem nemendur gætu verið flokkaðir sem góðir, betri eða bestir, taldi ég mig góðan námsmann, sá suma aðra sem betri, en Björn stóð alltaf upp úr sem framúrskarandi. Heimspeki er reyndar ekki keppnisíþrótt heldur ferðalag í átt að skilningi á kjarna hvers efnis með auðmýkt og beittri rökhugsun. Björn er framúrskarandi í þessu, og bætir jafnvel við húmor og mannlegri tengingu við stundum flókin hugtök.

Þótt leiðir okkar legið í ólíkar áttir síðustu þrjátíu árum, þá hef ég fylgst með starfi hans úr fjarlægð. Frá fyrstu ljóðabók hans til nýlegra fræðigreina og bóka, hefur verk hans sífellt heillað mig.

Það er með djúpri sannfæringu sem ég styð Björn Þorsteinsson í embætti rektors. Hans framúrskarandi framkoma og dýpt í fræðaheiminum gerir hann að framúrskarandi frambjóðanda fyrir starfið.

Höfundur er aðjúnkt við Háskóla Íslands, sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og landstengiliður Íslands fyrir norrænt samstarf um símenntun.




Skoðun

Sjá meira


×